Biðlisti eftir leikskólaplássi í Vestmannaeyjum hefur sjaldan verið styttri en nú. En öll börn eldri en 11 mánaða hafa fengið úthlutað plássi. „Alls eru 20 börn á biðlista leikskóla og eru elstu börnin fædd í september 2017 fyrir utan tvö eldri börn sem fædd eru 2013 og 2015 en þau fá vistun eftir sumarleyfi. Búið er að láta foreldra þeirra barna sem byrja á leikskóla í haust vita og staðfesta inntöku. Fjöldi barna á leikskólum verða um 228, 57 á Víkinni (fimm ára deildinni), 89 á Sóla og 83 á Kirkjugerði. Stefnt er að því að inntaka barna á leikskóla verði tvisvar á ári.”  Segir í fundargerð fræðsluráðs frá því í gær.

Þetta þýðir hins vegar það að varla er grundvöllur fyrir starfi margra dagforeldra í Eyjum. En mikill skortur hefur verið á þeim í Eyjum í gegnum tíðina en þeir eru fjórir starfandi í dag. „Dagforeldrar eru fjórir og geta þeir tekið allt að 20 börn. Fullt verður hjá einu dagforeldri í haust, hálffullt hjá tveimur en ekkert barn skráð hjá því fjórða. Ákveðið óöryggi er með rekstur dagforeldra vegna fækkunar barna á biðlista, yngri barna á leikskóla og inntaka á leikskóla er oftar en áður.” segir í fundargerðinni. En fyrir fundinum lá einnig erindi frá áhyggjufullu dagforeldri. En með auknu framboði á leikskólaplássum sem og fækkun barna í árgöngum minnkar eftirspurn eftir þjónustu þeirra. „Ráðið telur nauðsynlegt að tryggt verði næg pláss dagforeldraúrræða frá lokum fæðingarorlofs til þess að barn komist í leikskólapláss. Ráðið felur framkvæmdastjóra sviðs að koma með tillögur að lausn sem tryggir nægt framboð á dagforeldraúrræðum, ” segir í fundargerðinni.