Allt stefnir í að metþátttaka verið í Vestmannaeyjahlaupinu í ár. „Hlaupið fer fram næstkomandi laugardag og nú þegar hafa skráð sig um 210 manns sem er meira en á sama tíma og þegar metið var sett 2011,”  sagði Magnús Bragason einn skipuleggjanda Vestmannaeyjahlaupsins í spjalli við Eyjafréttir.

„Margir af bestu hlaupurum landins hafa boðað komu sína og er  tvöföldun á þátttakendum í hálfmaraþoni frá því sem var í fyrra. Þá er einnig mikið af hlaupahópum á leiðinni sem margir hverjir ætla svo að gista í Eyjum og gera sér glaðan dag um kvöldið.

Kári Steinn með son sinn Arnald.

Vestmannaeyjahlaupið er samt fyrst og fremst hugsað fyrir alla. Að allir geti tekið þátt, hver á sinn hátt. Til að mynda ætlar Arnaldur Kárason, eins árs, að taka þátt og verður, þrátt fyrir ungan aldur, að teljast líklegur sigurvegari. Pabbi hans, Kári Steinn Karlsson, hefur nefnilega tekið þátt í öllum Vestmannaeyjahlaupunum og sigrað í hvert skipti,” sagði Magnús og hló.

Áhugasamir geta enn skráð sig. Opið verður fyrir skráningu til kl. 20.00 á föstudagskvöld. En hlaupagögn verða afhent á föstudaginn milli kl. 18 og 20 í Íþróttamiðstöðinni.

Öll hlaupin hefjast við Íþróttamiðstöðina, 21 km hlaupið kl. 11:30 en 5 og 10 km hlaupin kl. 12:00.