Strákarnir í ÍBV heimsóttu Hafnarfjörðinn í kvöld þar sem þeir mættu FH í leik í áttundu umferð Olís-deildar karla.

Heimamenn byrjuðu betur en Eyjamenn tóku þó fljótlega við sér og komust í 8-5 eftir frábæran varnarleik. Staðan í hálfleik 12-14 ÍBV í vil.

Eyjamenn byrjuðu síðari hálfleikinn að miklim krafti og voru með fimm marka forystu þegar um fimmtán mínútur voru eftir. Markvörður FH-inga, Birkir Fannar Bragason, hrökk þá í gang og kom heimamönnum aftur inní leikinn ásamt Ásbirni Friðrikssyni sem átti sannkallaðan stórleik og skoraði 12 mörk fyrir heimamenn.

Það var svo fyrrnefndur markvörður sem tryggði FH sigurinn með því að verja frá Kára Kristjáni Kristjánssyni úr dauðafæri á línunni með fimm sekúndur á klukkunni. Lokatölur 28-27 FH í vil.

ÍBV er því komið í ní­unda sæti deild­ar­inn­ar með sex stig líkt og ÍR, Grótta og KA.

Markahæstir í liði ÍBV voru Fannar Þór Friðgeirsson og Theodór Sigurbjörnsson með fimm mörk hvor. Aðrir markaskorarar voru Elliði Snær Viðarsson (4), Kristján Örn Kristjánsson (4), Kári Kristján Kristjánsson (4), Grétar Þór Eyþórsson (3) og Sigurbergur Sveinsson (2)