Á fundi bæjarráðs í gær var farið yfir samantekt framkvæmdastjóra Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf., um stöðu undirbúnings á starfsemi ferjunnar. Samkvæmt minnisblaðinu er gert ráð fyrir að nýja ferjan fari í prufusiglingu undir lok janúar. Allir framleiðendur og hönnuðir munu fylgja skipinu eftir þá siglingardaga sem prófunin stendur yfir. Það má því segja að smíðin sé komin á lokastig og afhending ætti að geta farið fram undir lok febrúar.
Á þessum tíma er ekkert sem komið hefur upp sem gefur tilefni til að ætla að nýja ferjan verði ekki tilbúin til reksturs á tilsettum tíma.

Mannaráðningar ganga samkvæmt áætlun
Ráðningar áhafnar og annarra starfsmanna gengur samkvæmt áætlun. Búið er að ráða í skipstjórastöður, yfirstýrimenn, stýrimenn og háseta. Gert er ráð fyrir að ljúka ráðningu vélstjóra á næstu dögum.
Auglýst verður að nýju eftir starfsfólki í eldhús og þjónustu. Um er að ræða störf bryta/matráðs, þernu og þjónustufólks.
Ekki hefur verið gefin út mönnunarþörf fyrir nýju ferjuna þó einhverjar hugmyndir hafi verið lagðar fram. Það er mikilvægt fyrir rekstrarfélagið að öryggi farþega og rekstri ferjunnar verði aldrei stefnt í tvísýnu og því miðast áætlanir við þann mönnunarfjölda sem nú liggur fyrir. Ekki verður gefin út endanleg mönnun fyrir ferjuna fyrr en hún er komin til landsins.
Samskipti og samtal við stéttarfélög eru og hafa verið í gangi. Ekki er búið að ganga frá skriflegum ráðningarsamningum, en ráðningasamningar eru að verða tilbúnir og munu þeir verða lagðir fram til undirritunar þegar ráðningaferli er lokið.

Vinna við vefsíðu og bókunarkerfi gengur vel.
Búið er að setja upp þar sem starfsfólk Hefjólfs ohf. ásamt Kasmos & Kaos vinna að gerð heimasíðunnar og bókunarvélarinnar. Nýráðnir starfsmenn, einn úr áhöfn og tveir úr afgreiðslu, sitja í verkefnahópnum.
Skírteini sem vinna þarf að og snúa að rekstrarfélaginu eru öll í samræmi við áætlanir og eru að mestu lokið. Samvinna og samskipti eiganda og rekstraraðila eru góð varðandi alla vinnu við gerð skírteina og er þessi vinna vöktuð af báðum aðilum.
Öll verkefni félagsins sem snúa að undirbúningi ferjunnar ganga samkvæmt áætlun. Þess ber að geta að straumlínulögun starfslýsinga og vinnutilhögunar verður fullmótuð þegar ferjan er komin heim til Eyja. Aðstæður og aðbúnaður um borð í nýju ferjunni er ólíkur umhverfi núverandi Herjólfs.
Framkvæmdastjóri hefur jafnframt átt góð samskipti við atvinnulífið, ferðaþjónustuaðila og flutningsaðila. Rekstrarfélagið mun starfa með öllum þessum aðilum.

Áhyggjur af dýpkunarmálum
Þá ræddi bæjarráð ræddi stöðu dýpkunaar í Landeyjarhöfn. Ráðið hefur áhyggjur af dýpkunarmálum í Landeyjarhöfn og felur bæjarstjóra að vera í samskiptum við Vegagerðina um málið til að þrýsta á um að vel verði að verki staðið. Bæjarráð ítrekar afstöðu sína um að höfnin sé heilsárshöfn og hvergi verði slakað á þeirri kröfu.

Flugsamgöngnur
Bæjarráð fór yfir stöðuna í flugsamgöngum. Njáll Trausti Friðbertsson, formaður starfshóps sem hafði það hlutverk að móta tillögur um uppbyggingu flugvallakerfisins á Íslandi og eflingu innanlandsflugs sem almenningssamgangna, mun fjalla um nýútkomna skýrslu starfshópsins um eflingu innanlandsflugs og rekstur flugvalla, á opnum fundi í Eldheimum þann 21. janúar nk.