Mikil umræða hefur er í gangi í Eyjum varðandi opnun Landeyjahafnar undanfarna daga sér í lagi þar sem dýpkunartölur virðast fljótt á litið vera siglingum í hag.

„Unnið er eftir verkáætlun sem miðar að því að gera höfnina klára fyrir Herjólf eins fljótt og hægt er. Eins og staðan er núna á eftir að fjarlægja 30 þús m3, þar af 5-10 þús m3 milli garða og afganginn í innri hluta hafnarinnar,” sagði G. Orri Gröndal, mælingamaður hjá siglingasviði Vegagerðarinnar. „Það er mikilvægt að við fáum næði til að klára þetta áður en umferð verður sett á höfnina.”

„Vinna með dýpkunarskipi hófst 4. mars. Skipið afkastar ca. 5 þús m3 á sólarhring við kjöraðstæður. Afköstin minnka þegar aðstæður versna. Aðstæður á hverjum tíma eru metnar út frá ölduhæð, öldulengd og vindhraða,” sagði G. Orri.
„Skipið vann við dýpkun 4., 5., 6., 7., 12. og 13. mars. Búið er að fjarlægja 11-12 þús m3.
Annað dýpkunartæki, gröfuprammi sem er í Þorlákshöfn núna og verður fluttur til Landeyjahafnar um leið og það er hægt. Mögulega um helgina en það er ekki öruggt.”

Vonast er til að hægt verði að auka afköstin í allt að 10 þús m3 á dag þegar gröfupramminn verður kominn. „Okkar mat er að við þurfum bæði tæki í 4-6 daga til þess að fjarlægja sandinn sem er að trufla miðað við stöðuna núna.
Miðað við nýjustu veðurspár verður hægt að vinna frá aðfaranótt sunnudags og fram á mánudagskvöld og síðan ekki meir fyrr en á föstudag – laugardag í næstu viku. Skv. þessu mun ekki takast að gera höfnina klára fyrr en í fyrsta lagi eftir næstu helgi.”