Nú liggur fyrir að nýja Vestmannaeyjaferjan Herjólfur getur farið að hefja siglingar samkvæmt siglingaáætlun félagsins. Næstu daga verður unnið að frágangi og undirbúningi fyrir rekstur í nýju ferjunni. Stefnt er að taka rennsli með áhöfn næstkomandi þriðjudag og miðvikudag. Dagarnir verði nýttir til að reyna á hafnaraðstöðu og breytingar sem þar hafa verið gerðar. Ef allt gengur eftir hefjast siglingar næsta fimmtudag.

Unnið er að lokafrágangi á ökubrú í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn. Frágangur miðar að því að báðar ferjurnar geti silgt á hafnirnar, lestað og losað farartæki. Einnig verður komið fyrir nýjum stigagang fyrir útgöngu komu- farþega. „Nú er stefnt að því að farþegar sem koma með Herjólfi til Eyja fari út um þennan útgang þannig að ekki myndist öngþveiti i afgreiðslunni þar sem hingað til bæði komu- og brottfara- farþegar hafa gengið um. Ný langöngubrú frá húsi og í ferju kemur svo upp í haust/vetur og verður hún breiðari en núverandi. Hún er sambærileg að breidd og þeirri sem er í Landeyjarhöfn,“ sagði Guðbjartur Ellertsson framkvæmdastjóri Herjólfs í samtali við Eyjafréttir.

Með þessari framkvæmd er aðstaðan orðin sambærileg og í Landeyjum þ.e. að komu- farþegar fara beina leið út úr húsi en ekki í gegnum afgreiðsluna. „Þetta verður vonandi til að létta á afgreiðslunni í Vestmanneyjum sem er fyrir lögnu spurngin. Jafnframt má benda á að þegar nýja ferjan fer í rekstur munu farþegar í bifreiðum fara með inn á bíladekk og ganga í farþegarýmið þaðan. Þetta mun hafa einhver áhrif til batnaðar,“ sagði Guðbjartur.