Stjórn Eyjasýnar ehf., útgáfufélags prentmiðilsins Eyjafrétta og vefmiðilsins eyjafrettir.is, boðar til hluthafafundar þriðjudaginn 20. ágúst nk. til að ræða stöðuna og mögulegar breytingar á starfseminni í ljósi óviðunandi rekstrarafkomu og tilheyrandi óvissu. Ljóst er að sú breyting að fækka útgáfudögum Eyjafrétta fyrir réttu ári úr vikublaði í mánaðarrit, ásamt því að halda úti öflugum vefmiðli, eyjafrettir.is, hefur ekki skilað því sem vænst var.

Fram kom á stjórnarfundi Eyjasýnar í dag að stærstu hluthafar félagsins (Ísfélag Vestmannaeyja hf., Vinnslustöðin hf. og fleiri) væru reiðubúnir að styðja tillögu um að auka hlutafé í Eyjasýn til að tryggja starfsemina og skapa svigrúm til að styrkja stoðir rekstrarins til lengri tíma.

Annar tveggja starfsmanna Eyjasýnar,  Sara Sjöfn Grettisdóttir ritstjóri, ákvað að láta af störfum núna í lok júlímánaðar. Henni eru færðar þakkir fyrir gott starf í þágu félagsins. Hinn starfsmaðurinn, Sæþór Vídó Þorbjarnarson, var í dag ráðinn tímabundið til að starfa áfram hjá Eyjasýn eða þar til línur skýrast frekar varðandi útgáfustarfsemi í nánustu framtíð.

Stjórn Eyjasýnar ehf.
29. júlí 2019