Sindri Ólafsson hefur verið ráðinn ritstjóri Eyjafrétta og vefmiðilsins eyjafrettir.is og Sæþór Vídó Þorbjarnarson ráðinn til að starfa àfram fyrir fjölmiðlana.

Jafnframt ákvað stjórn Eyjasýnar að gefið yrði ùt blað með fréttasniði aðra hvora viku í stað mánaðarritsins nú og halda áfram úti vefnum eyjafrettir.is.

Markmiðið er að auka útbreiðslu blaðsins, styrkja vefinn og auka tekjur útgáfufélagsins Eyjasýnar af áskrift og auglýsingum.

Hugleiðing í framhaldinu

Stjórn Eyjasýnar hefur sem sagt gengið frá ráðningu Sindra og Sæþórs. Annar ritstjóri hafði verið kynntur til sögunnar í fyrri viku en sá tilkynnti um helgina að hann hefði ákveðið að taka ekki við starfinu. Þá ákvað stjórnin að kanna hug Sindra til málsins í ljósi þess að hann sótti um hlutastarf á ritstjórn Eyjafrétta fyrr í sumar þegar þáverandi stjórn Eyjasýnar auglýsti það laust til umsóknar. Niðurstaðan varð sú að semja formlega við hann um að taka við sem ritstjóri.

Útgáfa prentmiðla á í vök að verjast. Það á ekki síst við um héraðsfréttablöð sem því miður hafa mörg hver týnt tölunni af ýmsum ástæðum, aðallega vegna þess að rekstrargrundvöll skorti. Komnar eru til sögunnar kynslóðir sem láta sér duga að fylgjast með því á Vefnum sem þær hafa áhuga á, þegar þær lystir og helst ókeypis.

Í norrænum grannríkjum okkar hefur verið brugðist við með því að koma á opinberu stuðningskerfi við svæðisbundna fjölmiðla með þeim rökum að starfsemi þeirra sé nauðsynlegur liður í umræðu, samskiptum og viðskiptum heima fyrir og í þjóðfélaginu yfirleitt.

Í deiglunni er að koma líka á laggir slíku stuðningskerfi hérlendis. Mennta- og menningarmálaráðherra kynnti á Alþingi frumvarp þar að lútandi fyrr á árinu og gefur sterklega til kynna að ríkisstjórnin vilji leiða málið til lykta með lögfestingu á komandi þingi.
Slíkur stuðningur myndi styrkja stoðir Eyjasýnar líkt og annarra útgáfufélaga í svipaðri stöðu.

Ekki síst með þetta í huga ákváðu eigendur Eyjasýnar að tryggja félaginu fjármuni til að marka útgáfunni breyttan farveg og gefa áfram út Eyjafréttir á 43 ára gamalli kennitölu! Blaðið hefur komið út frá 1973 en útgáfufélagið var stofnað 1978.

Við heyrum greinilega að Eyjamenn kjósa gjarnan að sjá meira „fréttasnið“ á blaðinu og viljum svara því kalli. Mannlíf, atvinnulíf, stjórnmálalíf og alls kyns líf hér á erindi sem umfjöllunarefni í víðasta skilningi og miðlarnir skulu vera vettvangur skoðanaskipta líkt og títt gerist í blöðum yfirleitt, stórum og smáum, og í frétta- og dægurmálavefjum.

Bæjarmálapólitíkin í Eyjum er á köflum býsna hvöss og einhver kann nú að velta fyrir sér hvernig fjölmiðill með ritstjóra, fjölskyldutengdan bæjarstjórninni, geti fjallað af hlutlægni um mál á þeim vettvangi? Eðlilegt að spurt sé og þeirri spurningunni veltum við eðlilega fyrir okkur í stjórninni og við nýjan ritstjóra sömuleiðis. Sindri treystir sér vel til að taka fagmannlega á hlutunum og við treystum honum fullkomlega. Hann hefur þekkingu og áhuga sem við sækjumst eftir og á ekki að gjalda fjölskyldutengslanna.

Aðalatriðið er samt það að verk ritstjórnar og fjölmiðlafólks yfirleitt eru jafnan opinber, eðli máls samkvæmt. Í því er aðhald fólgið sem fjölmiðlar hafa og eiga að hafa.

Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er spennandi en ekki endilega létt. Það vitum við en erum ákveðin í að takast á við áskorunina. Eyjafréttir og samfélagið í Eyjum eiga það margfaldlega skilið.

Stjórn Eyjafrétta,

Atli Rúnar Halldórsson
Hjalti Enok Pálsson
Margrét Rós Ingólfsdóttir