Þurftum að bregðast við breyttu farþegastreymi

Aukin ferðatíðni Herjólfs eru frábær samgöngubót fyrir Vestmannaeyjar það hefur svo sannalega sýnt sig í sumar. Hin hliðin á þessum fjölda ferða er svo minni nýting á flugsamgöngum.

Frá og með 1. september mun flugfélagið fækka ferðum sínum niður í tíu ferðir í viku. „Flogið verður alla daga nema laugardaga og verða tvær ferðir mánudaga, miðvikudaga, fimmtudaga og sunnudaga en ein ferð á þriðjudögum og föstudögum,“ sagði Ásgeir Örn Þorsteinsson, sölu- og markaðsstjóri flugfélagsins Ernis í samtali við Eyjafréttir. „Einnig munum við áfram bæta við ferðum, og oft með stuttum fyrirvara, eins og t.d. í kringum stórar helgar, viðburði og/eða þegar eftirspurn eykst umfram framboð á ákveðnum dögum og tímum.”

Ásgeir sagðir ástæðuna fyrir þessari fækkun ferða vera töluverða fækkun farþega. „Ástæða fækkunar er töluverð fækkun farþega sem vonandi er samt bara tímabundin. En við þurftum að bregðast við breyttu farþegastreymi með fækkun ferða.
Við höfum möguleika á að bæta aftur í ferðafjöldann ef eftirspurn eykst og því þarf að nýta þessa þjónustu til að hægt sé að halda henni gangandi með tveimur ferðum á dag.”

Aðalbókari

Ásgeir sagði þetta ekki eingöngu bundið við Vestmannaeyjar það sama sé uppi á teningnum á öðrum áfangastöðum félagsins. „Það er fækkun almennt og höfum við fækkað ferðum á Höfn og Húsavík einnig,“ sagði Ásgeir.

Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs.

Bindum miklar vonir við skosku leiðina
Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs sagði í samtali við Eyjafrétti þetta að sjálfsögðu vera töluvert áhyggjuefni fyrir Vestmannaeyjar. „Jú að sjálfsögðu höfum við áhyggjur af stöðunni og stöðu innanlandsflugs almennt. Öflugt innanlandsflug er ein forsenda fyrir dreifðri byggð í landinu og nú er orðið ljóst að ekki er aðeins verið að fækka flugferðum til Vestmannaeyja heldur einnig til Ísafjarðar, Egilsstaða og Húsavíkur. Því miður virðist innanlandsflug eiga erfitt uppdráttar þessar vikurnar og við höfum vissulega áhyggjur af því og höfum líst því. Flugið er hluti af okkar samgöngum og það er gríðarlega mikilvægt fyrir íbúa og fyrirtæki í Vestmannaeyjum að geta treyst á flugtengingu við höfuðborgina,“ sagði Njáll.

„Bæjaryfirvöld hafa rætt stöðuna í bæjarstjórn og tvisvar í bæjarráði, bæði á síðasta fundi sem og í vetur þegar Ernir tilkynnti þá um fækkun flugferða til Vestmannaeyja. Við höfum átt samtöl við bæði þingmenn sem og samgönguráðherra sem vinnur nú að útfærslum hinnar svokölluðu skosku leiðar sem við bindum miklar vonir við að verði til þess að glæða innanlandsflug og gera það aðgengilegra almenningi. Því miður hafa þessar útfærslur ekki enn komið fram.” Njáll sagði bæjaryfirvöld halda áfram að þrýsta á ráðherra og þingmenn. „Við munum halda samtali okkar við ráðherra og þingmenn áfram og þrýsta á eins og við getum að skapað verði umhverfi þar sem innanlandsflug geti vaxið og dafnað.”

Ný áætlun Ernis tekur gildi þann 1. september næstkomandi. Flogið verður mánudaga, miðvikudaga og fimmtudaga kl. 7.15 og 15.45 til Eyja og kl. 8.00 og 16.30 frá Eyjum. Á þriðjudögum og föstudögum verður aðeins ein ferð kl. 15.45 til Eyja og 16.30 frá Eyjum. Ekkert flug verður á laugardögum en á sunnudögum verða farnar tvær ferðir. Klukkan 11.30 og 17.30 til Eyja og klukkan 12.15 og 18.15 frá Eyjum.

04 – uppbyggingasjóður

Mest lesið