Góður skriður er kominn í pysjuveiðarnar en í dag komu 198 fuglar til viktunar og er þá heildar talan komin í 963 stykki. Þetta eru aðeins færri pysjur en í gær en pysjurnar eru ennþá frekar smáar og er meðalþyngdin um 235 grömm. Starfsfólk pysjueftirlitsins á von á góðri veiði um helgina og eru enn fremur bjartsýn á það að pysjur eigi eftir að halda áfram að skila sér fram í miðjan september. Þau vilja einnig koma því á framfæri að vel er hægt að vigta pysjurnar heima og senda þeim upplýsingar um þyngd, dagsetningu og finnendur með tölvupósti á [email protected]. Auðvelt er að vigta fuglana með eldhúsvog og plastskál. Ef pysja er mikið léttari en 200 gr. eða mikið dúnuð er ráðlegt að koma með hana á safnið og fá frekari leiðbeiningar. Mikilvægt er að sleppa lundapysjum við fyrsta tækifæri og handleika fuglana sem minnst. Þá er vert að minna á að það er pláss fyrir góða sjálfboðaliða í pysjueftirlitinu og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband.