Skipurit Vestmannaeyjahafnar var til umræðu í framkvæmda- og hafnarráði á þriðjudag. Starfshópur sem skipaður var á 236. fundi framkvæmda- og hafnarráðs skilaði minnisblaði um skipulag Vestmannaeyjahafnar þar sem fram koma hugmyndir að breyttu skipulag á starfsemi hafnarinnar. Tvær hugmyndir eru lagðar fram, annars vegar að ráðinn verði sérstakur hafnarstjóri sem heyrir beint undir bæjarstjóra eða verkstjóri hafnarþjónustu sem heyrir undir framkvæmdastjóra Umhverfis- og framkvæmdasviðs.

Ráðið samþykkir tillögur starfshópsins og vísar ákvörðun um skipulagsbreytingar til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Tóku viðtöl við nokkra starfsmenn
Til að fá sem besta mynd af núverandi stjórnun og skipulagi hafnarinnar voru tekin einstaklingsviðtöl við nokkra starfsmenn hafnarinnar. Í viðtölunum voru eftirtalin atriði rædd. stjórnun hafnarinnar, viðhald og framkvæmdir hafnarinnar, utanumhald starfsfólks, þekking starfsfólks, áætlanir og stefnumótun hafnarinnar

Einnig var stjórnskipulag annarra hafna skoðað.

Álag vegna framkvæmda bæjarins mikið
Samkvæmt framkvæmdastjóra telur hafnarstjórastaðan 10-15 %, en framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs er einnig hafnarstjóri. Álagið vegna framkvæmda bæjarins er mikið og talar framkvæmdastjóri um að þegar eitt verkefni klárist taki annað við. Hefur álagið aukist til muna eftir að bæjaryfirvöld keyptu aftur til sín fasteignir bæjarins af Fasteign hf. Þetta endurspeglast í því að engin vinna hefur átt sér stað í stefnumótun hafnarinnar og það er engin framkvæmdar- eða viðhaldsáætlun fyrir höfnina til. Skipstjóri Lóðs tók við, að beiðni framkvæmdastjóra, framkvæmdar- og viðhaldsverkefnum og mengunarvörnum ásamt fleirum tilfallandi verkefnum. En þessi verkefni tilheyrðu meðal annars skrifstofumanni Vestmannaeyjahafnar.

Langar boðleiðir og skortur á verkstýringu
Í viðtölum við starfsmenn á hafnarsviði umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar kom fram gagnrýni á langar boðleiðir og skort á verkstýringu. Eins að skortur væri á samstarfi starfsmanna hafnarinnar. Mikilvægt er að skýrt liggi fyrir starfslýsing hjá öllum starfsmönnum sviðsins, þá bæði hvað varðar hafnarsviðið og einnig umhverfis og framkvæmdasviðið. Í dag er til starfslýsing fyrir einn starfsmann sem vinnur hjá höfninni. Það er ekki til framkvæmdar- og viðhaldsáætlun, rekstrarhandbók, öryggis- og vinnuverndarstefna eða gæðakerfi fyrir höfnina.

Tvær tillögur
Hópurinn telur mikilvægt að ráðast í það verkefni að endurskoða rekstur þessa umfangsmikla sviðs. Ljóst er að umfang verkefna tengd hafnarstjóra eru mun meira en sem nemur 10-15% af stöðu framkvæmdastjóra. Gríðarleg aukning verkefna tengd framkvæmdasviði bæjarins hefur gert það að verkum að sífellt minni tími er fyrir framkvæmdastjóra sviðsins til að sinna verkefnum hafnarinnar. Það er samdóma álit undirritaðra að það þurfi að skoða vel skipurit framkvæmdasviðsins í heild.

Hópurinn setti að lokum fram tvær tillögur að sett yrði staða Hafnarstjóra eða Verkstjóra hafnarþjónustu.

1. Hafnarstjóri
Sett verði upp ný staða hafnarstjóra sem heyrir beint undir bæjarstjóra. Meginviðfangsefni væru
● yfirumsjón hafnarinnar, ábyrgð á daglegri starfsemi, skipulagning og nýting tiltækra starfskrafta
● Frumkvæðishlutverk í stefnumörkun, þekkingaröflun, þekkingarmiðlun, þróunarstarfi og greiningu upplýsinga sem varða hafnarstarfsemi og markaðstækifæri hafna.
● Hafnastjóri ber ábyrgð á að sótt sé allt hugsanlegt fjármagn annarstaðar frá í rekstur og viðhald hafnarinnar.
● Ábyrgð á þjónustu fyrir hafnarstjórn og eftirfylgni ákvarðana hennar.
● Vinna við stefnumótun hafnarinnar og áætlunargerð er snúa m.a. að gæðamálum, hafnarvernd, verndaráætlunum, öryggismálum, viðbragðsáætlanir, umhverfismálum o.fl.
Hæfnikröfur:
● Tæknimenntun á háskólastigi, sem nýtist í starfi
● Færni í mannlegum samskiptum við fólk og fyrirtæki
● Gerð er krafa um góða alhliða tölvukunnáttu s.s. Excel og Word
● Góð íslensku- og enskukunnátta
● Góðir leiðtogahæfileikar, frumkvæði, skipulagshæfni og sjálfstæði í vinnubrögðum
● Rík þjónustulund og mikil færni í mannlegum samskiptum

● Reynsla af stjórnunarstörfum, gerð fjárhagsáætlana, annarra áætlana

 

2. Verkstjóri hafnarþjónustu

Heyrir undir framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs.
● Sinnir daglegum verkefnum og rekstri í umboði hafnarstjóra og hafnarstjórnar.
● Annast verkstjórn annarra starfsmanna á höfninni og hefur skilgreinda undirmenn.
● Umsjón með eigum hafnarinnar, gætir reglu á hafnarsvæði og sinnir þjónustu sem höfnin kýs að veita skipum og bátum.
● Vinna við stefnumótun hafnarinnar og áætlunargerð er snúa m.a. að gæðamálum, hafnarvernd, verndaráætlunum, öryggismálum, viðbragðsáætlunum, umhverfismálum o.fl.
● Ber ábyrgð á vigtun afla og annarri vöru sem fer um höfnina eftir því sem við á.
● Stendur skil á skýrslum til Fiskistofu og annarra opinberra aðila eftir því sem lög og reglur segja til um.

● Gengur í öll tilfallandi störf sem tilheyra rekstri hafnarinnar sem og önnur störf sem honum eru falin af hafnarstjóra.

Hæfnikröfur:

● Stúdentspróf eða iðnmenntun sem nýtist í starfi.
● Gerð er krafa um góða alhliða tölvukunnáttu s.s. Excel og Word
● Góð íslensku- og enskukunnátta
● Góðir leiðtogahæfileikar, frumkvæði, skipulagshæfni og sjálfstæði í vinnubrögðum
● Rík þjónustulund og mikil færni í mannlegum samskiptum
● Reynsla af stjórnunarstörfum, gerð fjárhagsáætlana, annarra áætlana
Ritstj