Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti á fundi sýnum þann 25. janúar 2024 að auglýsa skipulagslýsingu fyrir breytingar á aðalskipulagi sem gerir ráð fyrir nýjum landnotkunarreitum fyrir hafnarsvæði. Frestur til að skila ábendingum og athugasemdum við tillöguna rann út 26. febrúar.

Ánægð að fólk láti sig skipulagsmálin varða
Dagný Hauksdóttir Skipulags- og umhverfisfulltrúi staðfesti í samtali við Eyjafréttir að alls hafi borist 38 athugasemdir við breytingunum. “Það hafa komið umsagnir frá 22 íbúa, 10 fyrirtækjum og félögum og 6 umsagnaraðilum.” Kom þessi fjöldi á óvart? “Já og nei. Hann kemur á óvart af því við fáum yfirleitt ekki margar umsagnir frá íbúum, en miðað við hvað málið er stórt þá hefði ég alveg búist við jafnvel enn fleiri umsögnum. Ég er alltaf ánægð að fólk láti sig skipulagsmálin varða.”

Umræðan á skjön
Mikil umræða um þetta mál hefur ekki komið Dagnýu á óvart. “Um er að ræða breytta landnotkun fyrir innviði sem eru mikilvægir fyrir samfélagið sem um leið munu hafa áhrif á umhverfi og ásýnd einstakra kennileita í Vestmannaeyjum. Því er mjög eðlilegt að íbúar hafi vissar áhyggjur sérstaklega þegar málið er svo stutt komið á veg og erfitt að sjá þetta fyrir. En það kemur á óvart hvað umræðan hefur verið á skjön eða ekki verið í samræmi við skipulagslýsinguna eða það sem ég hef heyrt hjá hafnarstjóra, t.d. að fullyrt er að kantur við Eiðið komi ekki lengur til greina, og að það þurfi að brjóta úr Klifinu til að gera höfn við Eiðið. Auk þess birtist mynd þar sem kanturinn við Gjábakkafjöru nær mun austar en áætlað er ásamt því að myndin var í röngum hlutföllum og því verið að gefa kolranga hugmynd með henni.”

Langt í land
Aðspurð um næstu skref í þessu máli segir hún þau fela í sér vinnu við breytingu á aðalskipulagi á vinnslustigi. “Á því stigi mun vera skýrara um hvaða landsvæði er að ræða og hvar hafnarkantarnir munu liggja. Sömuleiðis verður gerð grein fyrir ákvæðum varðandi hvers konar starfsemi og mannvirkjum er gert ráð fyrir. Vegagerðin er að vinna í nánari greiningu varðandi stórskipakant í Gjábakkafjöru. En mikilvægt er að árétta að hér er um að ræða vinnsla við aðalskipulagsbreytingu, eins og fram hefur komið, en ekki breyting á deiliskipulagi. Sem þýðir að útfærsla svæðanna mun ekki liggja fyrir að lok aðalskipulagsbreytingunni s.s. byggingareitir,” sagði Dagný að lokum.