Listakonan Jónína Björk Hjörleifssdóttir opnar í dag myndlistarsýningu á Kaffi Mílanó í Reykjavík klukkan 16:00. „Þetta eru mín fyrstu skref í að halda einkasýningu á hinu stóra Íslandi. Ég hef áður haldið einkasýningu hér heima í Eyjum ásamt einni samsýningu með Konný og nokkrum samsýningum með listafólki hér heima. Ég tók líka þátt í  útilistasýningu með Grósku í Garðabæ og einnig samsýningu á Laugarveginum á gallerí 101”, sagði Jóní í samtali við Eyjafréttir.

Sýningin verður opin virka daga til kl 18.00 á daginn. Sýningin stendur yfir í mánuð.

„Fyrir þessa sýningu hef ég verið einungis í mosaik verkum og verð bara með þannig myndir. Kem ég til með að sýna 33 verk í mismunandi stærðum allt frá 7.5×7 cm og upp í 55×55 cm,“ sagði Jóní.

Búin að brasa í þessu rúm 20 ár

Jóní byrjaði að mála upp úr 1998 eftir námskeið hjá Steinunni Einarsdóttur. „Þar var ég aðallega í olíunni og var einnig mikið að fikta í leirnum, þannig að ég er búin að vera að brasa í þessu í rúm 20 ár. Ég hef haft mjög gaman að þessu öllu.

Jóní segir Innblásturinn koma víða að en á þessari sýningu dreymdi hana fyrstu myndina. „Svo komu hinar bara. Fólk heillar mig alltaf það gera einnig kindur og Heimaklettur svo eins og vanalega fær það að fjúka með,“ segir Jóní og hlær.

„Fram undan er líka spennandi ár þar sem við Konný erum að fara að taka þátt í samsýningu í sumar með öðrum listamönnum í Skálholti. Hjá Hvíta húsinu verða þrjár sýningar á árinu og hjá myndlistafélaginu verður sýning í haust svo árið er sannarlega bjart og skemmtilegt. Svo komum við ykkur á óvart með listafólkinu okkar sem bara vex og dafnar,“ sagði Jóní að lokum.