„Ég myndi segja að ég sé frekar fjölbreytt. Ef ég fæ leið á einhverjum stíl þá færi ég mig yfir í eitthvað allt annað” segir Sunna Einarsdóttir, ung og upprennandi myndlistakona og eyjamær sem verður með sýningu yfir Goslokin í Craciouskró á Skipasandi. Með henni verður Unnar Gísli Sigurmundsson, sem gengur undir listamannsnafninu Júníus Meyvant, með sína sýningu.

„Ég er mjög spennt að vera með Unnari og er spennt að sjá verkin hans. Það verður gaman fyrir fólk að kíkja á okkur þar sem við erum með ólíkan listastíl” segir Sunna sem hefur verið teiknandi frá unga aldri og skólabækur hennar alltaf verið stútfullar af alls konar skissum og teikningum.

„Þegar ég var yngri þá sá mamma eitthvað í mér og sagði mér að prufa að teikna alls konar dýr. Ég verð henni alltaf þakklát fyrir það því ég væri alls ekki að gera það sem ég er að gera í dag ef hún væri ekki að hvetja mig áfram og væla í mér að fara að teikna” segir Sunna. Síðustu ár hefur hún verið að teikna grískar styttur og kemur innblásturinn aðallega frá grískum byggingarstíl og öðrum styttum.

Þrátt fyrir ungan aldur þá er þetta ekki fyrsta sýningin hennar Sunnu en þegar hún var 12 ára voru myndirnar hennar til sýnis á Hótel Vestmannaeyjar í einhvern tíma. Sunna útskrifaðist úr Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum í vor og segir listina klárlega vera eitthvað sem henni langar til að gera í framtíðinni. „Listaháskólinn í Reykjavík heillar mig mjög mikið en svo væri ekki leiðinlegt að fara út í skóla” segir Sunna.

„Það eru allir velkomnir að kíkja á sýninguna og ég hlakka til að sjá alla” bætir Sunna við.

Sýningin opnar fyrir gestum miðvikudaginn 5. júlí kl. 18:00.