Berglind Sigmarsdóttir, myndlistakona og eigandi veitingastaðarins GOTT, er ein þeirra listamanna sem verða með sýningu yfir Goslokin. Sýningin ber nafnið Leikfangalist – Toy Art, en til sýnis og sölu verða verk gerð úr hinum ýmsu leikföngum. Einnig verða til sölu eftirprent af myndunum. Myndirnar eru teknar af Kristbjörgu Sigurjónsdóttur og eru prentaðar á 180 gr. mattan ljósmyndapappír.

„Eftir að hafa verið að mála um einhvern tíma langaði mig að skipta aðeins um gír og fyrir rúmu ári síðan hóf ég að safna að mér allskyns leikföngum sem ég sá fyrir mér að endurnýta í einhverskonar listaverk. Ég var ekki alveg búin að sjá fyrir mér lokaútkomuna en mér fannst þetta spennandi hugmynd. Eftir vinnu allt síðasta sumar sat ég í borðstofunni heima og sorteraði leikföngin eftir litum. Ég náði stundum að plata fólk í kaffi til þess að sortera með mér. Siggi steig alveg á nokkra legókubba og börnin skildu ekkert í þessu þar sem þau voru öll hætt að leika sér með dót og því nokkuð skrítið að sjá mömmu sína bera inn kassa af Legó, Barbie og svo framvegis. Þetta verkefni felur í sér svo margt sem ég elska; gamla hluti sem gefa mér innblástur, möguleika á endurnýtingu og mikið af litum. Clara dóttir mín er búin að vera í hönnun í vetur og vorum við að prófa okkur áfram með þennan efnivið. Leikföngin í myndunum er raðað á þann hátt að þau framkalla ákveðna mynd en stundum eru leikföngin líka valin af ástæðu til þess að leggja áherslu á eitthvað sérstakt í verkinu” segir Berglind á Facebook viðburði sýningarinnar.

Á sýningunni verða sömuleiðis nokkrir safngripir af leikföngum frá árunum 1970-1990 og ætlar Berglind að gefa gjafabréf á GOTT ef einhver lumar á strump fígúru sem hún á ekki og er til í skipti.

Sýningin opnar þriðjudaginn 4. júlí kl. 17:00 í Viðey (gamla Klaufin) við Vestmannabraut 30 og stendur til sunnudags 9. júlí. Áhugasömum er bent á Instagram síðu Berglindar sem má finna hér.

Opnunin verður þessi:

4. júlí kl. 17:00-19:00

5. – 7. júlí kl. 16:00-18:00

8. – 9. júlí kl. 13:00-17:00