Á dögum samkomubanns leitar kirkjan ýmissa leiða til að koma boðskap sínum til fólksins.

Í gær ritaði biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, samstarfsfólki sínu bréf þar sem hún kynnti verkefni sem nokkrir prestar hafa undirbúið. Það kallast: Hádegishljómur í kirkjuklukkum landsins og sameiginleg bænastund hvern dag. Um er að ræða bænastund í kirkjum landsins kl. 12.00 á hádegi hvern dag meðan á samkomubanni stendur. Kirkjuklukkum verður hringt á hádegi í þrjár mínútur – klukkum verður samhringt. Síðan hefst bænastund.

Ýmsir geta leitt bænastund af þessu tagi, prestar, djáknar, safnaðarfólk. Allt fólk er bænafólk og ekki síst þegar aðstæður allar eru óvenjulegar og það gefur á bátinn. Öllum þykir sömuleiðis gott að vita af því að fyrir þeim sé beðið, sem og fyrir landi og þjóð, á erfiðum tímum í lífi fólksins í landinu – og heiminum. Vitneskjan ein og sér um að einn eða tveir séu að biðja fyrir fólki í kirkjunum getur verið styrkjandi og hvetjandi til bæna heima eða hvar sem er.

Biskup sendi jafnframt með í bréfi sínu helgihaldsform fyrir þessa bænastund sem má notast við í heild eða að hluta. Hvatti biskup presta landsins til að taka þátt í þessu helgihaldi eftir því sem hægt væri á hverjum stað.