Álag á stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hefur aukist síðustu daga og fjölmargar tilkynningar borist um veikindi sjófarenda. Þetta kemur fram frétt á vef Gæslunnar.

Varðstjórar hafa því verið milliliðir við hafnir, sóttvarnalækni, lögreglu og heilbrigðisyfirvöld á hverjum stað og leiðbeint áhöfnum báta og skipa vegna slíkra mála. Landhelgisgæslan verður vör við að áhafnir gæti fyllstu varúðar og séu varar um sig ef vart verður við veikindi um borð í skipum. Það er afar jákvætt að skipverjar séu á varðbergi ef grunur er um smit um borð.

Varðstjórar stjórnstöðvar hafa staðið frammi fyrir ýmsum nýjum áskorunum sem krefjast aukins samstarf við fjölmarga aðila og hefur samstarfið verið til fyrirmyndar.

Vaktafyrirkomulagi varðstjóranna hefur verið breytt og þeir lagt töluvert á sig svo tryggja megi að starfsemi stjórnstöðvarinnar haldist órofin.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar náði í sýni til Vestmannaeyja um síðustu helgi og áhafnir loftfara Landhelgisgæslunnar eru til taks ef flytja þarf COVID-19 smitaða á sjúkrahús í Reykjavík.