Einn til viðbótar hefur verið greindur með COVID-19 og er fjöldi þeirra sem greinst hafa með staðfest smit því orðinn 103 í Vestmannaeyjum. Aðilinn var í sóttkví. Þeir sem hafa náð bata eru 29 og eru því enn 74 með virk smit. 213 einstaklingar eru í sóttkví þegar þetta er skrifað.

Nú þegar páskar nálgast er brýnt fyrir Eyjamönnum að fara að settum reglum, þær helstu eru:
• Ráðstefnur, skemmtanir, tónleikar, leiksýningar, bíósýningar, íþróttaviðburðir og einkasamkvæmi eru bönnuð.
• Aðrir sambærilegir viðburðir með 10 einstaklingum eða fleiri eru bannaðir.
• Tryggt skal í allri starfsemi að ekki séu á sama tíma fleiri en 10 einstaklingar inni í sama rými.
• Í allri starfsemi skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.
• Samkomustöðum og starfsemi með sérstakri smithættu skal lokað s.s. sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum ofl.
• Starfsemi sem krefst eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar er óheimil s.s. allt íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa ofl. Þetta á einnig við um íþróttastarf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér.

Leiða má líkur að því að fækkun smita í samfélaginu sé vegna samkomubanns og hertra aðgerða. Tíminn núna er viðkvæmur og ef ekki er farið að reglum má búast við frekari útbreiðslu sjúkdómsins. Virðum þessar reglur og björgum mannslífum.

Aðgerðastjórn