Sólrún Gunnarsdóttir

Hjúkrunar- og dvalarheimilið Hraunbúðir auglýsti síðasta föstudag að vilji væri til að koma á fót sinni eigin bakvarðarsveit í Vestmannaeyjum vegna Covid-19, færi svo að brottfall yrði mikið í hópi starfsmanna. „Við höfum fengið mjög góð viðbrögð við bakvarðarsveitinni og erum komin með á annan tug einstaklinga sem hafa skráð sig og enn er að bætast við.  Helst að okkur vanti inn hjúkrunarfræðinga. Við vonumst þó auðvitað til þess að lenda ekki í þeirri stöðu að þurfa að kalla til fólk en viljum vera við öllu undirbúin, sagði Sólrún Gunnarsdóttir deildarstjóri í öldrunarmálum í samtali við Eyjafréttir.“

Sólrún segist hrærð yfir þessum viðbrögðum og gott að finna að hugur bæjarbúa sé hjá þeim á Hraunbúðum. „Við finnum fyrir miklum meðbyr sem skiptir ótrúlega miklu máli.“

Heimsóknarbannið tekur á
„Það skal sagt að heimsóknarbannið tekur alveg á, eðlilega. Starfsfólkið leggur sig þó fram um að gera sitt allra besta til að sinna líka félagslegum þörfum heimilismanna en auðvitað kemur ekkert í staðinn fyrir nánustu aðstandendur. Það hafa þó verið fundnar aðrar leiðir til að vera í samskiptum s.s í gegnum myndsamtöl, bréfaskrif og gluggasamtöl,“ segir Sólrún og tekur fram að aðstandendur hafi sýnt þessu mikinn skilning og eiga þakkir skildar fyrir það. „Þetta heimsóknarbann var sett á með heildarhagsmuni heimilismanna í huga til að lágmarka líkur á að smit berist inn á heimilið.  Við tökum þó einn dag í einu, allir eru að vanda sig og fylgja verkferlum og fyrir það á starfsfólkið líka hrós skilið.“

Eldra fólk ber sig almennt vel
Starfsmenn öldrunarþjónustu og félagsþjónustunnar eru að hringja út í eldri borgara þessa dagana og taka stöðuna og reiknar Sólrún með því að þau nái að setja sig í samband við um helming íbúa í aldurshópnum 67 ára og eldri.  „Fólk ber sig almennt vel þrátt fyrir þá erfiðu stöðu sem uppi er í samfélaginu og margir hafa einhvern í kringum sig sem getur aðstoðað og veitt stuðning ef þörf er á.  Ef ekki, eru úrræðin til staðar bæði hjá Vestmannaeyjabæ, Rauða krossinum og þeim fjöldamörgu fyrirtækjum í bænum sem bjóða upp á heimsendingar og hafa sýnt frábært frumkvæði í að breyta fyrirkomulaginu og koma til móts við eldri borgara og aðra bæjarbúa í þessum aðstæðum.“

Öll él stytta upp um síðir
Sólrún segir marga af þeim eldri borgurum sem rætt hefur verið við séu í sjálfskipaðri sóttkví. „Annars held ég bara að allir bíði spenntir eftir sumar og sól og betri tíð, en eins og við vitum stytta öll él upp um síðir,“ sagði Sólrún að lokum.