Kæru Eyjamenn

Komandi laugardag átti fótboltasumarið að hefjast hjá okkur í ÍBV með bikarleik gegn Grindavík. Vetrarmótin höfðu gengið mjög vel og mátti hvergi sjá að ÍBV léki deild neðar en mörg lið sem liðið keppti við og vann.

Ekki er ljóst hvenær knattspyrnusumarið hefst en miðað við fréttir Almannavarna nú dag eftir dag fer maður að fyllast bjartsýni og sjá að þetta ástand endar einn daginn, ótrúlegt en satt.
Við í ráðinu fengum ÍBV goðsagnirnar Gunnar Heiðar og Tómas Inga til að velja sín draumalið sem mætast ekki í Draumaleik ÍBV þann 18. apríl. Mætast ekki segi ég. Já, um sýndarleik er að ræða en peyjarnir skiluðu inn skemmtilegum texta þar sem þeir rökstuddu val sitt gaumgæfilega.
Að lesa um leikinn er góð skemmtun og er keppni í lestri á landsvísi en lestur er ekki bara bækur, þó að þær séu auðvitað bestar. Ég skora því á alla að lesa um draumaleikinn hér í hlekknum: https://tix.is/is/event/9971/draumaleikur-ibv/ en þar kemur m.a. fram að Tómas Ingi valdi pabba sinn til að þjálfa liðið sitt svo hann yrði örugglega í liðinu. Einnig er þar að finna stórkostlega spá frá Gumma Ben. Er viss um að margir taki fótboltaafþreyingu fagnandi og er um að gera að fræða þau yngri um þá leikmenn sem þarna eru valdir.

Ef þið eruð í stuði megið þið gjarnan kaupa miða á leikinn (sem fer aldrei fram) og styðja þannig við deildina. Einhverjir á Facebook hafa líka skorað á aðra kaupa miða og er um að gera að láta vita af þessum leik, þó ekki sé nema bara fyrir skemmtilegan lestur, eins og áður segir. Allur stuðningur er ákaflega vel þeginn.

Það kemur að því að fótboltasumarið hefjist og er ÍBV með stór markmið fyrir sumarið þar sem heimamenn verða í stórum hlutverkum í bland við þá flottu aðkomumenn sem við höfum á að skipa.

 

Að endingu vil ég óska ykkur gleðilegra páska og segja; áfram ÍBV, alltaf , alls staðar!

Fótboltakveðja,

Daníel Geir Moritz, formaður knattspyrnuráðs kk