Ekkert smit hefur greinst síðan 6. apríl í Vestmannaeyjum og eru því komnir 5 dagar án þess að nýtt smit greinist. Hafa verður í huga að við skimun Íslenskrar erfðagreiningar bættust mörg smit við dagana 3.-5. apríl sem hefðu líklega greinst síðar hefði skimun ÍE ekki farið fram. Það er of snemmt að fagna, við erum ekki komin fyrir vind og að öllum líkindum eiga fleiri eftir að greinast með staðfest smit á næstu dögum. Meðfylgjandi er línurit yfir greind staðfest smit í Vestmannaeyjum sem undirrituð tók saman.

Samtals hafa 103 greinst með veiruna, 45 náð bata og eru því enn 58 með virk smit og eru í einangrun. Í dag eru 188 manns í sóttkví.

Ákveðið hefur verið að samkomubann miðað við 10 manns gildi áfram í Vestmannaeyjum að minnsta kosti til og með sunnudeginum 19. apríl nk. Þá verða komnar 4 vikur frá því að það var sett á. Markmiðið er að hefta útbreiðslu sjúkdómsins og verja þannig mannslíf.

Vestmannaeyingar hafa staðið sig vel í að fara eftir reglum og þess vegna erum við að ná árangri. Við gefumst ekki upp og klárum þetta saman.

Gleðilega páska kæru Vestmannaeyingar.

f.h. aðgerðastjórnar
Páley Borgþórsdóttir, aðgerðastjóri.