Mengunarvarnaáætlun Vestmannaeyjahafnar var til umræðu á fundi framkvæmda- og hafnarráðs í gær þar kom fram að reglulega berast fréttir af fugladauða í fjörum í kringum Vestmannaeyjar. Forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands í Vestmannaeyjum segir í grein á vefmiðlum að olían eigi að einhverjum hluta uppruna sinn innan hafnar en að vandamálið sé stærra.
Framkvæmdastjóri hefur fundað tvisvar með Umhverfisstofnun út af þessu og allir eru sammála að vandamálið er stærra og meira en svo að eingöngu sé um að ræða olíubrák í höfninni. Umhverfisstofnun og Landhelgisgæslan hafa verið að leita að olíu með suðurströndinni þar sem það eru ekki einungis að koma fuglar hjá okkur heldur alveg frá Kötlutanga í austri og að Snæfellsnesi í vestri.

Vestmannaeyjahöfn er mjög meðvituð um sitt hlutverk og viðbragð varðandi mengunaróhöpp og reynir að uppfylla sínar skyldur á sem bestan hátt. Vestmannaeyjahöfn hefur undanfarið unnið með Sealife að björgun og hreinsun fugla sem fundist hafa í kringum Vestmannaeyjar.

Ráðið lítur á þetta mál sem og önnur mengunarmál alvarlegum augum og hefur alltaf gert. Mengunarvarnir eru stór hluti hafnarstarfsemi og sífellt er verið að uppfæra búnað og tæki svo hægt sé að bregðast við á sem skilvirkastan hátt og koma í veg fyrir að mengun eigi sér stað. Vestmannaeyjahöfn mun hér eftir sem hingað til vinna að einurð með hlutaðeigandi aðilum og stofnunum að þessum málum. Munum að við erum öll mengunarvarnir.

Fjölbraut við Ármúla
Jóla Fylkir 2021