Anna Sigríður Þráinsdóttir er málfarsráðunautur RÚV. Hún er málfræðingur að mennt og var um árabil lektor í íslensku við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, áður Kennaraháskóla Íslands.

Eyjafréttir og Viska halda áfram með námskeiða/erinda lotuna, Viska – öllum til handa!
Næsta námskeið sem boðið verður upp á er námskeiðið Við erum öll móðurmálskennarar í umsjá Önnu Sigríðar Þráinsdóttur.

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft, segir málshátturinn. Foreldrar og forráðamenn, afar og ömmur, systkini og í raun allir sem koma að uppeldi og umönnun barna eiga þátt í máluppeldi þeirra.

Börn á öllum aldri hafa yfirleitt mjög gaman af því að velta fyrir sér orðum og orðasamböndum, pæla í hlutverki orða og merkingu, raða saman orðum í setningar, texta og jafnvel ljóð. Ótal aðferðum má beita til að hvetja þau áfram og ýta undir þennan áhuga og efla þannig málkunnáttu þeirra og máltilfinningu. Gildir þá einu hvert móðurmálið er.

Hlutverk málfyrirmyndarinnar er mikilvægt en það liggur ekki alltaf í augum uppi hvernig því hlutverki er best sinnt. Þarf að hafa áhyggjur af málkunnáttu og orðaforða barnsins? Hvernig er hægt að örva það og hvetja til dáða? Á að leiðrétta eða ekki?

Í erindinu verður reynt að leita svara við ýmsum þessara spurninga en líka rætt um viðhorf til málsins og ástæðuna fyrir því að það er mikilvægt að hafa gott vald á móðurmáli sínu.

Námskeiðið fer í loftið miðvikudaginn 29. apríl og verður þátttakendum aðgengilegt í fimm daga.
Þátttakendum verður þá boðið í fésbókarhóp þar sem hægt verður að hlýða á erindið og senda inn fyrirspurnir.

Aðgangur ókeypis í boði Visku og Eyjafrétta.

Nauðsynlegt er að skrá sig á námskeiðið á viskave.is/skraning/