Við þökkum skilning, þolinmæði og traust sem þið hafið sýnt okkur á undanförnum vikum.  Það er mikið tilhlökkunarefni að við sjáum loks fyrir endann á þessu tímabili hafta á heimsóknum og skiptingum á heimilinu. Á þessum orðum hefst frétt á heimasíðu Hraunbúða þar segir einnig. Við höfum þó lært ýmislegt sem við munum hafa í sessi áfram og annað sem við munum fara varlega í að breyta.  Við tökum næstu skref í afléttingum út maí skv því sem að neðan greinir og ef ekkert óvænt kemur upp á reiknum við með að allt verði orðið í mun eðlilegri farvegi í júní.

• Við höldum skiptingum heimilisfólks og starfsfólks á ganga út maí en sú breyting er gerð að allir heimilismenn nema þeir sem eru á „nýju“ álmunni, borða í stóra matsalnum en á sitthvorum tíma og á sitthvoru svæði í salnum, sú breyting tók gildi 15.maí
• Heimsóknir til heimilisfólks út maí verða með því sniði að leyfðar eru tvær heimsóknir á viku til hvers heimilismanns eða eftir samkomulagi.
• Óskað er eftir að aðstandendur skrái sig áfram á ákveðna tíma fyrir tímabilið út maí. Við reynum að halda svipuðum tímum og verið hafa undanfarið, með möguleika á fleiri tímum
• Skráningar óskast sendar á [email protected] 
• Sömu reglur gilda varðandi sóttvarnir aðstandenda, þ.e sápuþvottur handa og sótthreinsun um leið og komið er inn, maski, skóhlífar, einn í einu og 2 metra reglan eins og mögulegt er
• Farið er beint inn á herbergi heimilismanns og beint út aftur
• Ef veður er gott er hvatt til gönguferða með heimilismanni en að bílferðir og heimsóknir út í bæ bíði þar til í júní
• Við treystum aðstandendum til að framfylgja þessum reglum eins og verið hefur
• Hársnyrting- og fótsnyrting mega taka á móti þjónustuþegum á þeim tíma sem tryggt er að ekki sé samgangur á milli heimilisfólks og gesta,  með ítrustu sóttvarnaraðgerðum á milli gesta.
• Stefnt er að því að í júní verði allt komið í mun eðlilegra form varðandi heimsóknir, opnað verði á milli dagdvalar, þjónustuíbúða og Hraunbúða og þeir föstu gestir sem komið hafa í hádegismat á Hraunbúðir geti komið þá
Við viljum þó ítreka að ef aðstæður í samfélaginu breytast til verri vegar og smit vegna Covid 19 aukast aftur gætum við þurft að endurskoða allt og fara aftur í stífari reglur