Nú styttist í það að mjaldrasysturnar flytji út í Klettsvík. Starfsfólk Sea life trust vinnur nú hörðum höndum að því að gera allt tilbúið fyrir þann flutning. Þau notuðu góða veðrið um liðna helgi og tóku sig til á samt fjölskyldum sínum og hreinsuðu til úti í Klettsvík en mikið safnast af rusli í fjörunni yfir vetrarmánuðina. “Auðvitað viljum við hafa sem snyrtilegast þegar við tökum á móti gestum úti í Klettsvík en einnig viljum við reyna fjarlægja alla aðskotahluti úr umhverfinu sem hugsanlega gæti valdið hvölunum skaða,” sagði Audery Padget hjá Sea Life í samtali við Eyjafréttir. Hún sagði að stefnt væri að því að gera þetta reglulega en einnig verður vel fylgst með aðskotahlutum á svæðinu þegar hvalirnir eru komnir út.

Ruslið sem hópurinn safnaði fyllti þrjú fiskikör og var mest plast og veiðarfærabúnaður

Annars er það að frétta að gestastofa Sea life trust verður opin fimmtudag, föstudag og laugardag frá klukkan 10 til 16. Lokað verður á sunnudeginum. Áfram verða takmarkanir á fjölda, en nú eru mega 50 gestir vera á sýningunni hverju sinni.