Keppni á TM-mótinu hefst í fyrramálið en dagskrá mótsins hefst þó í dag með bátsferðum og fleiru. TM-mótið hefur verið haldið árlega í Vestmannaeyjum frá því það var fyrst haldið árið 1990. Á mótinu keppir 5.flokkur kvenna í knattspyrnu. Mótið í ár er það stærsta hingað til að sögn Sigríðar Ingu Kristmannsdóttur mótsstjóra TM-mótsins. „Þátttakan hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár, árið 2016 vorum við með 76 lið og stefndi í að við yrðum með 104 lið í ár, s.s. fjölgað um 24 lið á 5 árum og 8 fleiri en í fyrra. En eftir covid fækkaði um 4 lið þannig að mótið í ár verður það stærsta hingað til með 100 liðum.“

Margar spurningar
Sigga Inga segir að áhuginn fyrir mótinu sé mikill en eðlilega hafi fólk haft ýmsar spurningar. „Eins og þessar tölur bera með sér er mikill áhugi fyrir mótinu og fengum við marga pósta og símtöl í miðju covid þar sem þjálfarar og foreldrar voru að spyrjast fyrir hvort að við myndum ekki alveg örugglega halda mótið, stelpurnar væru búnar að vera safna fyrir ferðinni og mikill spenningur fyrir því að koma. Á móti kom svo þegar tekin var ákvörðun um að halda mótið að þá fengum við margar spurningar um það hvernig við ætluðum eiginlega að gera þetta og jafnframt framfylgja þeim reglum sem væru í gildi. Fólk hafði miklar áhyggjur af því hvort að það fengi pláss á tjaldsvæðunum, hvernig við myndum bregðast við ef upp kæmi smit á mótinu og margir áttu erfitt með að taka ákvörðun um það hvort þau vildu koma á mótið eða senda stelpuna sína.“

Mikil keyrsla á lokametrunum
„Lokaundirbúningurinn er meiri og erum við að keyra hann á styttri tíma en verið hefur þar sem við þurfum að fylgja þeim fjöldatakmörkunum sem eru í gangi ásamt því að sinna sóttvörnum mjög vel með því að auka þrif og sótthreinsun á snertiflötum. Þetta kallar á að við þurfum að auka við starfsfólk á vöktum í gistingu, mat og á mótssvæðinu, en við erum ótrúlega heppin með hvað allir eru viljugir að hjálpa okkur í þessum aðstæðum og hefur þetta gengið mjög vel.
Við erum öll í aðstæðum sem við þekkjum ekki og vitum ekki hvernig framhaldið verður og margar spurningar sem ekki er hægt að svara, en við erum með frábært fólk í aðgerðastjórna almannavarna sem hefur hjálpað okkur mikið með skipulagningu mótsins,“ sagði Sigga Inga að lokum.