„Það segir svo í gömlu þjóðhátíðarkvæði:
… þrátt fyrir böl og alheimsstríð,
þá verður haldin þjóðhátíð.

Það verður ekki formleg þjóðhátíð í Herjólfsdal en ég reikna með því að Eyjamenn grípi til sinna ráða og tjaldi til dæmis í heimagörðum og færi sig um set eins og lundinn. Eftir því hvar sílið er,“ segir Árni Johnsen fyrrverandi Alþingismaður og Eyjamaður í samtali við Visir.is

Mörgum var brugðið við þegar ákveðið var að slá Þjóðhátíð í Eyjum af þetta árið. Vegna kórónuveirunnar. Þetta er ómissandi þáttur í lífi svo margra og hefur í gegnum tíðina hreinlega sett mark sitt á þjóðarsálina. Tugþúsundir manna hafa farið með reglubundnum hætti og skemmt sér í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgi.

Á engan er hallað þó sagt sé að holgervingur Þjóðhátíðar, lífið og sálin í samkomuhaldinu, sé Árni Johnsen. Í fjörutíu ár hefur hann brugðið gítar sínum á loft og sungið í hinum hefðbundna Brekkusöng sem að margra mati er einn hápunkta hátíðarinnar.

Hefur átt við vanheilsu að stríða
Árni segir þetta vissulega viðbrigði, að nú skuli þjóðhátíð slegin af vegna kórónuveirunnar..„Jájá, það er mjög slæmt að ekki skuli hægt að halda Þjóðhátíð með hefðbundnu sniði en stóísk ró er Eyjamönnum í blóð borin,“ segir Árni og bætir því við að allt verði þetta að ríma við náttúruna og umhverfið. En hann mun ekki sitja heima og horfa á sjónvarpið.

„Ég geri ráð fyrir því að ég muni lyfta kassagítar … já, eða, ég geri ekkert ráð fyrir því. Það verður. Við hljótum að finna pláss.“

Árni hefur átt við vanheilsu að stríða að undanförnu. Hann hefur dvalið nú um nokkurra mánaða skeið á spítala. „Ég fer bráðum að leggja af stað til Satúrnusar. En, þetta er að verða ágætt. Ég er hressari,“ segir Árni sem ætlar að slá strengi gígju sinnar og hefja upp sína raustu, líkt og hann hefur gert undanfarin fjörutíu ár.