Sveitastjórar á suðurlandi funduðu með ríkisstjórn Íslands síðastliðinn þriðjudag, 18. ágúst. Tilefni fundarins var starfsemi sveitarfélagana á tíkum Covid-19. Helstu niðurstöður fundarins voru kynntar á fundi bæjarráðs í gær.

“Fram kom í máli ráðherra að skilningur sé á misgóðri fjárhagsstöðu sveitarfélaganna í ljósi áhrifa af Covid-19 á fjárhagsafkomu og atvinnu, en mikilvægt sé að sveitarstjórnir geri allt hvað í þeirri valdi stendur til að halda úti þjónustu við íbúa og fyrirtæki og grípi til aðgerða til að tryggja atvinnu í sveitarfélögunum. Á fundinum lýstu sveitarstjórar jafnframt þungum áhyggjum af stöðu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og skerðingum fjárveitinga úr sjóðnum til sveitarfélaga, sem þegar hefur verið gripið til. Erfitt sé að halda úti þjónustu og atvinnu þegar tekjur eru að minnka og framlög úr Jöfnunarsjóði að skerðast. Búist er við að skerðingar fjárveitinga til Vestmannaeyjabæjar nemi um 137 m.kr. á þessu ári,” segir í fundargerð bæjarráðs.

Á fundi sveitarstjóranna spurði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, dómsmálaráðherra hvenær til stæði að auglýsa embætti lögreglustjórans í Vestmannaeyjum. Kom fram í svari ráðherra að það stæði til að auglýsa embættið á næstu dögum.

Þá greindi bæjarstjóri bæjarráði frá því að heilbrigðisráðherra hefði nýlega skipað starfshóp til þess að greina fjármál og starfsemi hjúkrunarheimila á landsbyggðinni, sem ýmist hefðu sagt upp samningi við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur slíkra heimila, eða væru að íhuga það alvarlega. „Ljóst er að fjárveitingar ríkisins til reksturs hjúkrunarheimila í umræddum sveitarfélögum duga engan veginn til að veita þá þjónustu sem slíkum stofnunum ber að veita og því þurfi sveitarfélögin að greiða með starfsemi hjúkrunarheimilanna. Það er óásættanlegt. Hefur Vestmannaeyjabær, m.a. sveitarfélaga, sagt upp samningi við Sjúktratyggingar Íslands um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hraunbúða. Vestmannaeyjabær hefur ítrekað óskað viðbragða frá heilbrigðisráðuneytinu og Sjúktratryggingum Íslands um uppsögn samningsins, en enn er beðið svara. Í fréttum gærdagsins kom fram að Heilbrigðisstofnun Norðurlands komi til með að taka yfir rekstur hjúkrunarheimilisins á Akureyri.“