Þegar ég á erindi í Reykjavík hef ég vanið mig á það að stilla útvarpið í bílnum á Útvarp Sögu. Hvað sem hver segir hef ég lúmskt gaman af því sem þar fer fram en það á þó ekki alltaf við um þá sem ferðast með mér og hafa ekki sama húmor.

Ástæða þess að ég hlusta á Útvarp Sögu er ekki til þess að fá gagnrýna, hlutlausa og vandaða umfjöllun um málefni líðandi stundar. Saga hefur síst verið þekkt fyrir það í gegnum tíðina. Þvert á móti kynnir útvarpsfólkið fyrir mér aðra skoðun á samfélaginu en þá sem ég tel mig hafa. Hlustendur sem hringja inn og ræða málin hafa síðan undantekningarlítið sömu skoðunar og þáttarstjórnendurnir og ekkert óeðlilegt við það enda velur hver og einn sér fjölmiðil eftir sínu höfði.

Svona fjölmiðlar eru víða, bæði hér á landi og úti í hinum stóra heimi. Umræðan stjórnast af skoðunum þáttagerðarmanna, ritstjóra, eigenda eða venslamanna þeirra.

Meira að segja eru sumir fjölmiðlar beinlínis starfræktir til þess eins að reka grímulausan áróður. Þeir verða seint teknir alvarlega, sérstaklega þegar þeir starfa eftir einkunnarorðum um hið gagnstæða. Þessir fjölmiðlar eiga það nefnilega oftar en ekki sameiginlegt að þeir segjast „frjálsir“ og „óháðir“. Til að mynda eru einkunnarorð hinnar bandarísku Fox fréttastofu „Fair and balanced“ – sanngjörn og í jafnvægi. Eins og áhorfendur þeirrar stórskemmtilegu áróðursvélar átta sig þó fljótlega á eru einkunnarorðin þó í besta falli ýkjur.

Einn galla er hægt að finna á sumum áróðursmiðlunum. Þegar hitnar í kolunum verður umfjöllun þeirra oft á tíðum ruddaleg og talað um pólitíska fulltrúa sem hunda eða þaðan af verra svo dæmi séu tekin. Þrátt fyrir þetta hef ég staðið mig að því að skella upp úr þegar settar eru fram fullyrðingar um spillingu, eineltistilburði, þöggun, ófagleg vinnubrögð, skerðingu á tjáningarfrelsi fólks, svikin loforð og svo mætti lengi áfram telja. Þegar heimildamenn og álitsgjafar eru ekki aðrir en skoðanabræður hinna „hlutlausu“ ritstjóra þessa miðla fer að glitta í úlfinn undan sauðagærunni.

Þá er ekki annað hægt en að brosa. Og ég bíð spenntur eftir því hverju Útvarp Saga segir mér frá næst þegar ég á leið til höfuðborgarinnar.

Njáll Ragnarsson.