Tilkynnt var um val á bæjarlistamanni Vestmannaeyja 2024 í Eldheimum rétt í þessu.  Skólalúðrasveit Vestmannaeyja lék nokkur lög og nemendur úr 7. bekk GRV sem taka þátt í lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar lásu ljóð. Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs tilynnti um valið sem að þessu sinni var tónlistarmaðurinn Birgir Nielsen.

Njáll kom meðal annar inn á það í ræðu sinni að frá því að Birgir flutti hingað til Eyja í upphafi árs 2010 hefur hann heldur betur látið til sín taka í tónlistarlífi okkar Eyjamanna. Hann hefur tekið þátt í hinum frægu Eyjatónleikunum í Hörpu frá 2012 – 2023 og lék auk þess með Blítt og létt hópnum á fjölda tónleika á árunum 2009-2019. Nú um helgina fer fram tónlistarhátíðin Hljómey og er Birgir einn af stofnendum þeirrar hátíðar og er auk þess verkefnastjóri hennar. Áherslan þar á bæ er lögð á að fá hæfileikaríkt fólk víða að af landinu og sérstaklega að koma ungu eyjafólki á framfæri.

Auk þessa hefur Birgir sinnt mörgum trúnaðarstörfum í tónlistinni og starfað með t.d. Goslokanefnd, hefur setið í stjórn Leikfélags Vestmannaeyja og gegndi þar formennsku um tíma auk þess sem hann gengdi hlutverki hljómsveitarstjóra 2010-2013. Hjá Leikfélaginu tók hann þátt í uppfærslu á m.a. Konungi ljónanna, Mamma Mía, Banastuði, Grease og Rocky Horror sem vakti verðskuldaða athygli og var valin athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins árið 2023 og var sýnt á fjölum Þjóðleikhússins.

Birgir vildi koma eftirfarandi á framfæri:

“Ég er þakklátur fyrir að njóta þess heiðurs að hljóta nafnbótina bæjarlistamaður Vestmannaeyja 2024. Ég hef í gegnum tíðina haft mikla ástríðu í að skapa og flytja tónlist með fjölbreyttum hópi áhorfenda á öllum aldri og með mismunandi bakgrunn. Ég hef spilað á mörgum af stærstu tónlistarviðburðum landsins og unnið með mörgu af hæfileikaríkasta tónlistarfólki landsins. Sú reynsla mun nýtast mér til sköpunar og skapa einstök tónlistarverk þar sem áherslan verður lögð á náttúru Vestmannaeyja. Ég er stoltur af framlagi mínu til samfélagsins við tónlistarkennslu, miðlun á tónlistararfi Vestmannaeyja og hvatningu til ungs Eyjafólks í tónlistarheiminum. Þá hef ég tekið virkan þátt í hvers kyns uppfærslum hvort sem það er með Leikfélaginu, á Eyjatónleikum, Blítt og létt eða með öðrum tónlistarhópum þar sem menningararfi Vestmannaeyja er gert hátt undir höfði. Ég hef í gegnum tíðina einsett mér það að nýta tónlistina til þess að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og byggja upp sterkari einstaklinga og sterkara samfélag og tel ég að með jákvæðnina að vopni getum við haft enn meiri áhrif og nú vil ég leggja aukna á áherslu nýtingu tónlistar til þess að að bæta umhverfisvitund og umgengni um náttúruna.

Árið 2024 verður viðburðaríkt að vanda og kemur út mín þriðja sólóplata og ber hún nafnið “Eldur” þar sem hljóð úr náttúru Eyjanna skipa stóran sess. Fyrsta verk plötunnar Whales Of Iceland/Hvalalagið er komið í dreifingu og hefur vakið verðskuldaða athygli, þar eru hvalahljóð úr Vestmannaeyjum í forgrunni, Hnúfubakar sem voru hér við Eyjar í fyrra og svo mjaldrarnir Litla grá og Litla hvít lita hljóðheiminn á sinn einstakan hátt. Ég hef verið að þróa nýjar leiðir og aðferðir úr hljóðum úr náttúru Eyjanna og vonast til að geta skapað einstök tónverk sem munu leiða hróður Vestmannaeyja um langan veg og vekja athygli á einstakri náttúru og umhverfi. Framundan er að geta hlúð betur að listsköpun og áhugaverðum verkefnum á vettvangi listarinnar og er markmiðið að vinna að einstakri tónlist sem mun skara fram úr og haft djúp áhrif á listasögu og menningu Vestmannaeyja.”