Fulltrúar D lista lögðu fram eftirfarandi tillögu um íbúakosningu vegna fjölgunar bæjarfulltrúa á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku: “Í nýrri bæjarmálasamþykkt sem bíður útgáfu stjórnartíðinda er kveðið á um fjölgun bæjarfulltrúa í Vestmannaeyjum, þar er einnig kafli um íbúalýðræði og íbúakosningar.
Lagt er til að fram fari íbúakosning um fjölgun bæjarfulltrúa og lýstu bæjarfulltrúa vilja sínum um að það yrði gert á bæjarstjórnarfundi 17.09.2020.
Lagt er til að bæjarráð útfæri framkvæmd íbúakosningu um fjölgun bæjarfulltrúa nánar, samkvæmt lögum og reglum um íbúakosningar, og leggur tillögu að framkvæmd fyrir bæjarstjórn til samþykktar eigi síðar en á bæjarstjórnarfundi sem áætlaður er þann 3. desember næstkomandi.”

Fulltrúi E lista lagði þá fram breytingartillögu. “Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarráði að móta verklag til framtíðar er varðar íbúalýðræði, íbúafundi og íbúakosningar. Bæjarráð skili til bæjarstjórnar tillögum um þau málefni sem koma til kasta bæjarstjórnar og eru vel til þess fallin að kanna hug bæjarbúa til þeirra.
Til hliðsjónar þessari vinnu skal bæjarráð ræða möguleika á því að kanna hug bæjarbúa m.a. til fjölgunar bæjarfulltrúa sbr. nýsamþykkta bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar, framtíð M/b Blátinds auk annarra málefna sem bæjarráð telur til þess fallin að fari í slíkan farveg. Bæjarráð skal skila minnisblaði þess efnis til bæjarstjórnar eigi síðar en í desember.”

Breytingartillaga frá fulltrúum D lista við breytingartillögu frá fulltrúa E lista hljóðar svo:
“Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarráði að móta verklag til framtíðar er varðar íbúalýðræði, íbúafundi og íbúakosningar. Bæjarráð skili bæjasrstjórnar tillögu um þau málefni sem koma til kasta bæjarstjórnar og eru vel til þess fallin að kanna hug bæjarbúa til þeirra. Samhliða þessari vinnu skal bæjarráð útfæra íbúakosningu vegna fjölgunar bæjarfulltrúa sbr. nýsamþykkta bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar og mögulega framtíð M/B Blátinds, auk annarra málefna sem bæjarráð telur til þess fallin að fari í slíkan farveg. Bæjarráð skal skila minnisblaði þess efnis til bæjarstjórnar og eigi síðar en í desember.”

Breytingartillögu frá fulltrúum D lista við breytingartillögu frá fulltrúa E lista, var hafnað með fjórum atkvæðum E og H lista gegn þremur atkvæðum D lista.

Breytingartillaga fulltrúa E lista við tillögu D lista var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Fulltrúi D lista gerði grein fyrir atkvæðum D lista með eftirfarandi bókun:
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja þessa breytingartillögu en þykir miður að meirihluti bæjarstjórnar geti ekki slegið því föstu að efna eigi til íbúakosningar um fjölgun bæjarfulltrúa. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu fylgja málinu eftir.