Starfshópur dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis og auðlindaráðherra hefur skilað tillögum hvernig draga megi úr neikvæðum áhrifum á lýðheilsu og loftgæði vegna mengunar af völdum flugelda. Samkvæmt þeim verður meðal annars eingöngu heimilt að skjóta upp flugeldum á alls 20 klukkustunda tímabili um áramót.

„Breytingarnar á reglugerðinni leggjast ekki vel í okkur,“ sagði Arnór Arnórsson formaður Björgunarfélags Vestmannaeyja í samtali við Eyjafréttir. Hann þessa niðurstöðu vera vonbrigði þrátt fyrir að haft langan aðdraganda og fyrirsjáanlegt hafi verið að breytingar væru í vændum. „Þetta var bara tímaspursmál hvenær farið yrði í einhverjar breytingar á þessu. Þetta verður til þess að við förum úr því að vera með opið 28., 29., 30. og 31. desember í það að það er bara opið 30. og 31. Vissulega er lang mest að gera þessa tvo seinni daga hjá okkur en ætli þetta sé ekki um 20% af heildar sölunni sem fer fram þessa daga sem detta út.“ Arnór segir flugeldasöluna vera um 80% af heildar tekjum félagsins. Hann óttast ekki einungis að þessar takmarkanir hafi áhrif á fjárhaginn heldur einnig á starfið sjálft. „Það er alltaf ákveðin stemming hjá mörgum sem fylgir flugeldasölunni þetta er skemmtilegur tími þar sem margar hendur leggjast á eitt. Það á ekki bara við um félaga hjá okkur heldur einnig aðra bæjarbúa sem eru duglegir að heimsækja okkur þessa daga, margir oftar en einu sinni, sagði Arnór og brosir. Arnór veltir einnig upp öðrum umhugsunarverðum punkti. „Þetta er svo alls ekki „covid vænt“ að beina stórum hluta bæjarbúa á sama staðinn á tveggja daga tímabili. Það segir sig sjálft að erfitt verður að viðhalda allar sóttvarnir við þessar aðstæður.“

Arnór segir að sala hafi gengið vel síðustu ár. „Undanfarin ár höfum við verið að auka söluna um nokkur prósent en auðvitað koma inn á milli ár þar sem minna selst það ræðst af veðurspám og öðru. Við erum með Neyðarkallasöluna í byrjun nóvember á hverju ári og svo eru fyrirtækin og einstaklingar í bænum dugleg að styrkja okkur.“ Aðspurður um það hvort stjórnvöld þyrftu jafnvel að auka framlög til björgunarsveitanna komi til frekari tekjuskerðinga sagði Arnór að eðlilegast væri að stjórnvöld kæmu með meiri pening í rekstur björgunarsveita. „Ég er þó ekki spenntur fyrir því að sveitirnar fari á fjárlög.“
„Nú styttist í að við förum að selja neyðarkallinn og vil ég hvetja bæjarbúa til að taka vel á móti félögum okkar og kaupa kallinn. Einnig vil ég þakka Magnúsi Kristinssyni og fjölskyldu kærlega fyrir styrkinn, en þau komu á aðalfund félagsins í síðasta mánuði og færðu félaginu mikilvæga peningagjöf,“ sagði Arnór að lokum.