Þátttaka GRV í menntarannsókn var til umræðu á fundi fræðsluráðs í vikunni en um var að ræða framhald af 3. máli 332. fundar fræðsluráðs þann 6. júlí 2020.

Í niðurstöðu ráðsins segir: Það er jákvætt að í GRV sé horft til þróunarstarfs með það að markmiði að bæta árangur nemenda og getur fræðsluráð fallist á kosti þess að það sé gert í samvinnu við háskólasamfélagið, m.a. með stuðningi og rannsókn á árangri. Áætlaður heildarkostnaður rannsóknarinnar gæti orðið allt að 30 milljónir og myndi Vestmannaeyjabær greiða 1/3, allt að 10 milljónum. Ráðið samþykkir fyrir sitt leyti þátttöku í umræddri menntarannsókn með fyrirvara um að fjármagn sé tryggt.

Kostnaður verið á reiki
Fulltrúar D-lista bókuðu við þessa afgreiðslu. “Mikil vinna hefur átt sér stað undanfarin ár varðandi lestur í sveitarfélaginu og ber þar að nefna mikið og gott starf í leikskólum og GRV þar sem unnið hefur verið eftir skýrum áherslum á lestur og stærðfræði skv. framtíðarsýn í menntamálum síðan 2015. Til að betri árangur náist þurfa allir að standa vel saman bæði fræðslukerfið, heimilin og samfélagið allt. Það er jákvætt að finna fyrir því að GRV hefur metnað til að gera enn betur og sé áhugasamt fyrir því að taka þátt í verkefni sem þessu. Fræðslukerfið tekur til sín mikið fjármagn og er eðlilegt að þær áherslur og stefnur sem skólinn vill taka séu mótaðar af skólanum og í samráði við fagfólk innan þess ramma sem vinna á eftir. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja við áform skólans við að bæta enn frekar lestrarkennslu. Hins vegar hefur kostnaður og útfærsla varðandi greiðsluþátttöku sveitarfélagsins varðandi verkefnið verið á reiki og svör borist seint og illa, þar af leiðandi leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins áherslu á að fá slíkt á hreint svo að til aukins kostnaðar komi ekki til.”

Einstakt tækifæri
fulltrúar E og H lista svöruðu með eftir farandi bókun: ,,Skólastjórnendur GRV og skólaskrifstofa hafa lýst yfir áhuga og tilbúin að styðja þróunarverkefnið og rannsóknina. Foreldrafélag GRV styður jafnframt þátttöku og ásamt því að kennarafélag GRV hefur áhuga. Meirihluti telur mikilvægt að leita allra leiða að sækja fram, tileinka sér og þróa leiðir sem geta styrkt, bætt líðan og getu nemenda í skólaumhverfinu. Umrædd menntarannsókn er einstakt tækifæri fyrir GRV og Vestmannaeyjar að vera leiðandi í menntarannsóknum á Íslandi.”

Þróunarverkefni og menntarannsókn.pdf