Á fundi bæjarráðs á þriðjudag greindi bæjarstjóri frá fundum með Maríu Heimisdóttur, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands um framhald reksturs Hraunbúða. Lagt er til við bæjarstjórn að Vestmannaeyjabær reki Hraunbúðir áfram til a.m.k. 1. apríl á næsta ári. Með því er verið að freista þess að starfshópur heilbrigðisráðherra um fjármál dvalar- og hjúkrunarheimila hafi lokið greiningu á heimilunum og fyrir liggi niðurstöður um hvort ríkinu beri að greiða umtalsvert hærri upphæð með rekstri þeirra en gert hefur verið undanfarin ár. Liggi ekki fyrir niðurstaða í mars á næsta ári, er ljóst að reksturinn færist til ríkisins. Fyrir liggja drög að þriggja mánaða samningi milli Sjúkratrygginga Íslands og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Hraunbúða.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá samningi um rekstur Hraunbúða á þeim nótum sem bæjarráð ræddi um, með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar og að teknu tilliti til dagdvalarþjónustu við eldri borgara sem rædd var á fundinum.