Flugeldabingóið ÍBV verður haldið með pompi og prakt þriðjudaginn 29.desember kl.19:30. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍBV þar segir enn fremur. Í ljósi samkomutakmarkana getum við ekki haldið hefðbundið bingó en þess í stað verður viðburðurinn í rafrænu formi og verður útsending á ÍBV TV á Youtube. Þar sem um rafrænt bingó er að ræða að þá þarf að spila með rafrænu spjaldi í gegnum snjalltæki (síma/spjaldtölvu) eða fartölvu. Spjaldið kostar litlar 500 kr.- og þarf að forpanta og greiða fyrirfram en hérna er skráningarformið. ATH skráningu lýkur kl.15:00 á “leikdegi” 29.desember: https://forms.gle/XwABM6s3EbFtNSbh6

LEIÐBEININGAR: Þegar búið er að panta spjald/spjöld og greiða, þá fær viðkomandi sendan kóða sem hann notar til þess að skrá sig inn í bingóið í gegnum www.bingomaker.com. Þar er farið í “Join game” og nafnið á bingóinu okkar skrifað inn “Flugeldabingó ÍBV 2020” og settur inn kóðinn sem viðkomandi fékk sendan. Ef fólk ætlar að spila með fleiri en 1 spjald þarf að notast við fleira en 1 tæki eða nokkra flipa í vafra.

Vinningarnir eru eins og venjulega í formi flugelda og ekki af verri endanum. Þeim verður keyrt heim til sigurvegara miðvikudaginn 30.desember. Flugeldabingóið okkar hefur lengi verið vinsæll viðburður og vonumst við til þess að sem flestir taki þátt, þrátt fyrir breytt snið þetta árið.

Allar spurningar eru velkomnar og vísast til Vilmars Þórs á netfangið [email protected].