Sjávarútvegsráðherra hefur undirritað reglugerðir um loðnuveiðar Norðmanna, Grænlendinga og Færeyinga í íslenskri lögsögu. Endanleg ráðgjöf frá Hafró er þó ekki komin og kvótinn gæti átt eftir að aukast. Greint er frá þessu á vef fiskifrétta.

Norskum skipum er heimilt að veiða samtals 33.388 tonn af loðnu í fiskveiðilandhelgi Íslands. Færeyskum skipum er heimilt að veiða 3.050 tonn og grænlenskum skipum 4.453 tonn. Samtals gerir þetta 40.891 tonn.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur undirritað reglugerðir þess efnis og hafa þær verið birtar á vef Stjórnartíðinda.

Íslenskum skipum er því heimilt því að veiða 20,109 tonn, eða þriðjunginn af þeim 61 þúsund tonnum sem Hafrannsóknastofnun telur óhætt að veiða úr loðnustofninum hér við land.

Ekki er þó öll nótt úti enn því átta skip eru þessa dagana að leita loðnu umhverfis landið og vonir hafa vaknað um að hægt verði að hækka ráðgjöfina fljótlega eftir að þeim leiðangri lýkur, sem væntanlega verður um eða eftir helgina.

Framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum er sannfærður um að meiri loðna muni finnast, en hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson eru auk sex uppsjávarskipa við leit.

Nýta veðurgluggann í loðnuleit

„Við erum með samtals átta skip í þetta. Þar af eru fimm að mæla og þrjú að leita með,“ segir Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun. Hann er leiðangursstjóri loðnuleitarinnar sem nú stendur yfir.

„Við erum að miða við að klára þetta á innan við viku, alla vega, og reyna að klára sem mest meðan veður leyfir.“

Auk Hafrannsóknaskipanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar taka Aðalsteinn Jónsson SU, Ásgrímur Halldórsson SF og Börkur NK þátt í loðnumælingum, með vísindamenn frá Hafrannsóknastofnun innanborðs. Síðan eru þrjú skip til viðbótar að leita loðnu, Jóna Eðvalds SF, Bjarni Ólafsson AK og Hákon EA.

Sex skipanna héldu fyrst austur fyrir land, þar á meðal Árni Friðriksson. Fimm skip verða þar áfram við leit en Árni sigldi í gær norður fyrir til móts við Bjarna Sæmundsson og Hákon sem héldu úr höfn í Reykjavík í gær og tóku stefnuna vestur á Grænlandssund.

„Árni Friðriksson verður þar með hinum tveimur af því það er að opnast veðurgluggi þar. Við erum að vona að hafísinn verði ekki eins nálægt landi og hann var síðast. Það lítur aðeins betur út heldur en það var, en hann er þarna blessaður.“

Birkir gat lítið sagt um það í gær hvernig fyrsti dagurinn gekk: „Ekki nema bara það að skipin eru búin að vera að sjá loðnu þarna austur frá. Hún er bæði gengin upp á grunninn og er út með kanti. Það er verið að gera því skil, líka upp á grunnunum. Hún virðist því vera að ganga eitthvað þarna suður með Austfjörðunum.“

Þungt högg

Loðnubresturinn undanfarin tvö ár hefur bitnað illa á bæði fólki og fyrirtækjum, enda hafa loðnuveiðar jafnan skilað verðmætum upp á tugi milljarða í þjóðarbúið ár hvert.

Samkvæmt Hagsjá Landsbankans hefur loðnan á seinni árum, fyrir utan loðnubrestsárin tvö, skilað næst mesta útflutningsverðmætinu á eftir þorski.

Útflutningsverðmætið var að meðaltali 18,1 milljarður króna á árabilinu 2016-2018, en mun meira mörg árin á undan.

Tekjur af loðnuveiðum og vinnslu skiptast tiltölulega lítið milli fyrirtækja og byggðarlaga. Árið 2019 voru einungis 12 fyrirtæki með veiðirétt á loðnu. Þess vegna kemur höggið af loðnubresti sérstaklega illa við íbúa fárra sjávarbyggða og starfsmenn þeirra fyrirtækja sem um ræðir finna verulega fyrir því.

Í greiningu Landsbankans frá því í janúar í fyrra er það tekið saman að hámarkshlutdeild í loðnu á hvert eitt fyrirtæki er 20%. Ísfélag Vestmannaeyja er mjög nálægt því þaki. Það sama á við um Brim, auk þess sem Síldarvinnslan í Neskaupstað á mikilla hagsmuna að gæta sem og Vinnslustöðin í Eyjum. Vestmannaeyjar hafa verið stærsta löndunarhöfn loðnu á síðustu árum en á árabilinu 2016-2018 var að meðaltali 29% aflans landað þar. Næststærsta löndunarhöfnin er Neskaupstaður en 22% aflans á síðustu árum hefur komið þar á land og má segja að þessi tvö byggðarlög hafi skorið sig nokkuð frá öðrum stöðum, segir í Hagsjá Landsbankans. Á nefndu tímabili sést að fyrirtæki í Vestmannaeyjum hafa verið að fá tekjur upp á 5,8 milljarða að meðaltali á hverju ári og 2,9 milljarða í Neskaupstað.

Bjartsýni

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segist þess fullviss að meiri loðna finnist. Hann vísar til þess að upphafskvóti yfirstandandi vertíðar hafi verið 170 þúsund tonn. Kvótinn var gefinn út í lok nóvember 2019 og byggður á því að nóg sást þá af ungloðnu.

„Við hljótum að sjá eitthvað meira en 60 þúsund tonn núna. En svo er bara loðnan svolítið erfiður fiskur að átta sig á. Hún bara gengur og stundum sést hún, stundum ekki,“ segir Sigurgeir Brynjar.

Fari svo að ekkert bætist við veiðiheimildirnar úr því sem komið er, sé ekki eftir miklu að slægjast. „Við erum með tvö þúsund tonn. Það er ekki upp í nös á ketti. Auðvitað vanþakkar maður það ekki, en ég veit það verður meira,“ segir Sigurgeir Brynjar.

Spurður hvernig veiðum yrði háttað verði magnið lítið myndu Eyjamenn bíða eitthvað með að hefja veiðar. „Við myndum alltaf bíða eftir hrognunum. Það er bara svoleiðis.“

Mun meiri áhersla hefur verið á loðnuleit nú í vetur, enda loðnubrestur í tvö ár mikið högg fyrir sveitarfélögin, fyrirtækin og þjóðarbúið í heild. Stjórnvöld hafa því lagt fram viðbótarfjármagn sem hefur dugað til þess að fleiri skip hafa tekið þátt.

„Það sem skiptir mestu máli er að útgerðin, Hafró og stjórnvöld eru að vinna saman. Það er það besta í þessu,“ segir Sigurgeir Brynjar.

Skýrist fljótt

Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segist vonast til þess að endanleg ráðgjöf liggi fyrir fljótlega eftir að þessum leiðangri lýkur.

Hann segir það hafa komið skemmtilega á óvart hve mikil loðna fannst fyrir austan land í síðasta leiðangri. „Við vonumst til þess að klára þetta núna.“

Í ljósi þess að sérstakt fjármagn hefur verið eyrnamerkt loðnuleit og -mælingum að undanförnu þá kemur upp í hugann hvort taka mætti upp að nýju þá aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar að gæta sérstaklega að ungviði loðnunnar, en á árunum 1976 til 2003 var sérstakur seiðaleiðangur hluti af vöktun stofnsins.

Guðmundur segir vissulega áhuga vera á því innan Hafró að hefja seiðaleiðangur á ný. Fjármagn hafi hins vegar ekki fengist til þess.

„Seiðaleiðangurinn var að vísu einkum hugsaður til þess að fá upplýsingar um þorskinn, en nýttist einnig í loðnunni og fleiri tegundum.“

Hins vegar hafi verið farið reglulega í loðnulirfuleiðangra undanfarin ár og þaðan fáist einnig mikilvægar upplýsingar um útbreiðslu og afdrif loðnuungviðis.

Erfðaefnisrannsóknir

Eina og Fiskifréttir hafa greint frá hefur Hafrannsóknastofnun enn fremur verið að prófa sig áfram með erfðaefnisrannsóknir, meðal annars í þeim tilgangi að geta betur fylgst með loðnunni í rannsóknarverkefni sem nefnist eCap.

Christophe Pampoullie, verkefnisstjóri eCap, sagði í viðtali við Fiskifréttir árið 2019 að loðnan verði fyrsta stóra prófraunin í þessum rannsóknum.

„Það hefur orðið sífellt erfiðara fyrir okkur að finna hana. Þannig að hugmyndin var sú að taka vatnssýni úr hafinu, sía þau um borð og þróa síðan tækni sem við gætum nýtt okkur, þess vegna strax um borð í skipunum, sem myndi segja okkur hvort erfðaefni úr loðnu sé að finna þarna í hafinu. Ef sú yrði raunin þá getum við fylgt hafstraumunum og leitað uppi loðnuna.“

Skuldin við Noreg

Samkvæmt samningum Íslendinga við Noreg, Grænland og Færeyjar eiga Norðmenn rétt á að veiða 5 prósent kvótans, Grænlendingar 15 prósent en við Íslendingar 80 prósent. Að auki eiga Norðmenn rétt á að fá 25 þúsund tonn í skiptum fyrir þorskveiðar Íslendinga í Barentshafi, samkvæmt Smugusamningum sem gerður var árið 1999.

Þegar loðnubrestur verður, eins og undanfarin tvö ár, eiga Norðmenn rétt á að fá viðbótarloðnu árið eftir. Íslendingar gátu ekki útvegað Norðmönnum neinn loðnukvóta á síðasta ári vegna loðnubrests, og eru því í skuld en gætu greitt þá skuld með því að gefa eftir þorsk í Barentshafi. Þetta var gert í fyrra, þegar Íslendingar fengu bara um helming þorskkvótans í norsku lögsögu Barentshafsins. Norðmenn fengu hinn helminginn í bætur vegna loðnuleysis.

Fiskebåt, félag norskra útgerðarmanna, segir að Norðmenn geti fengið allt að rúmlega 50 þúsund tonn, en það fari eftir því hvernig semst við Ísland um það hvernig skuld síðasta árs verði greidd.

Audun Maråk, framkvæmdastjóri Fiskebåt, greinir frá því í norska blaðinu Fiskeribladet að árið 2019 hafi Íslendingar veitt 6.592 tonn af þorski í Barentshafi og Norðmenn hefðu í staðinn átt að fá 25.181 tonn af loðnu við Ísland árið 2020.

Þá hafi Íslendingar fengið 6.712 tonn af þorski árið 2020 og Norðmenn eigi því að fá 25.642 tonn af loðnu nú í ár. Norðmönnum hafi verið úthlutað 16.390 tonnum upp í það, og eigi því 9.292 tonn ennþá inni.

Grein af vef fiskifrétta