Fræðsluráð fundaði í síðustu viku til umræðu voru meðal annars samræmd próf í 9. bekk. Í íslenskuprófinu, sem var þann 8. mars sl., komu upp tæknileg vandamál í mörgum skólum sem gerðu það að verkum að margir nemendur misstu tengingu við prófið og þurftu að endurræsa og fara aftur inn. Í GRV náði tæplega 1/3 hluti nemenda að ljúka við prófið án teljandi vandkvæða en aðrir nemendur misstu tenginu við prófið og sumir ítrekað. Menntamálastofnun tók ákvörðun síðar þann 8. mars, í samráði við menntamálaráðuneytið, að fresta samræmdum prófum í stærðfræði og ensku. Skólunum var gefinn sá kostur að leggja öll þrjú prófin fyrir á tveggja vikna tímabili frá 15.-26. mars nk. í þeim tilgangi að dreifa álagi á prófakerfið. Það var svo þann 11. mars sem menntamálaráðherra ákvað að aflýsa prófunum enda ekki hægt að tryggja að fyrirlögn prófanna myndi ganga snuðrulaust fyrir sig. Nemendum stendur þó til boða að taka könnunarpróf á næstunni á pappírsformi.

Ráðið þakkaði yfirferðina og lagði fram eftirfarandi bókun: Fræðsluráð Vestmannaeyja leggur ríka áherslu á að kerfið sem notað verði við samræmd próf verði sem fyrst tekin til gagngerrar endurskoðunar. Það er óásættanlegt að við framkvæmd samræmdra prófa sé ítrekað notast við óviðunandi prófakerfi sem skapa aukið álag fyrir nemendur, kennara og skólastjórnendur.