Handknattleiksdeild ÍBV og Dánjal Ragnarsson hafa komist að samkomulagi og hefur Dánjal skrifað undir 3 ára samning við félagið. Hann kemur því til félagsins í sumar og leikur með liðinu í Olís-deildinni á næsta tímabili. Dánjal er fæddur árið 2001, er rétthent skytta og 194 cm á hæð. Hann kemur frá Færeyjum og er fæddur og uppalinn í Þórshöfn. Hann hefur leikið með Neistin þar í landi allt frá 6 ára aldri. Í byrjun yfirstandandi tímabils færði hann sig um set og lék með U-19 ára liði Skanderborg í Danmörku, en vegna vandræða í kringum Covid-19 að þá er hann kominn aftur til baka í uppeldisfélagið.
Hjá Neistin leikur Dánjal undir stjórn Arnars Gunnarssonar í færeysku deildinni, en Adda Gunn ættu flestir handknattleiksáhugamenn að kannast við. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ÍBV fær til sín lærisvein Arnars, en Kristján Örn Kristjánsson (Donni) kom á sínum tíma frá Fjölni sem Arnar þjálfaði, og er því óhætt að segja að við höfum góða reynslu af leikmönnum sem koma til félagsins í gegnum Adda, segir í tilkynningu frá ÍBV.
Dánjal hefur leikið með öllum yngri landsliðum Færeyja (U15, U16, U18 og U20) og er lið hans Neistin nú á leiðinni í undanúrslit um Færeyjameistaratitilinn.