Elliði Vignisson, fyrrverandi bæjarstjóri Vestmannaeyja og núverandi bæjarstjóri í Ölfusi, hefur ritað færslu á Facebook síðu sína undir yfirskriftinni “Nú er mál að linni!”

“Það er hreinn og klár viðbjóður að hlusta á umræðu á opinberum vettvangi um Vestmanneyjar og Eyjamenn þessa daga. Ég upplifi fullyrðingar útvarpsmanna svo sem þessa: „Það er eins og þetta sé einhver íþrótt innfæddra að nauða konum frá meginlandinu“ sem ofbeldi gagnvart mér og mínum.” segir Elliði í færslunni. Orð þau sem Elliði vitnar í komu fram í hlaðvarpsþættinum, Eldur og Brennisteinn, með þeim Snæbirni Brynjarssyni, fyrrverandi varaþingmanni Pírata, og Heiðari Sumarliðasyni.

Elliði upplifir ummælin sem sakfellingu án dóms og laga. Ráðist er harkalega gegn því sem honum er kært, heimahögum, vinum og fjölskyldu. Slík orðræða skaðar alla umræðu um kynferðislegt ofbeldi að mati bæjarstjórans. Elliði minnist á í færslu sinni að fyrir skömmu hafi útvarpsþáttur á Bylgjunni verið lagður af vegna fitusmánunar sem fram kom í þættinum. Lektor hjá HR hafi verið sagt upp vegna ummæla um konur á samfélagsmiðlum og starfsmaður Borgarleikhússins einnig misst vinnuna eftir að hafa talað illa um samstarfsfólk í samskiptaforriti.

“Dæmi sem þessi eru mörg.” ritar Elliði, “Á sama tíma skellir samfélagið skollaeyrum við því að íbúar eins samfélags hér á landi séu stimplaðir sem kynferðisafbrotamenn.”

“Ég krefst þess að stjórnendur fjölmiðla taki á þessu meini og beiti sér af fullri hörku gegn þessum plagsið. Ég skora á fólk að sitja ekki þegjandi undir umræðum þar sem heilu hóparnir, hvað þá íbúar heils samfélags, eru tengdir við alvarlegt ofbeldi eins og nauðgun.” Elliði vill þannig hvetja fólk sem ræðir þessi mál á opinberum vettvangi að forðast umræðu sem valdi óþarfa sársauka hjá saklausu fólki. “Nú er mál að linni.”

Þess má geta að stjórnendur þáttarins hafa beðist afsökunar á ummælunum. Þar sem í yfirlýsingu er meðal annars leitast sáran við að útskýra ummælin. Yfirlýsingin var birt á DV.is.
Vísir.is hefur fjarlægt þáttinn af vef sínum.

Færslu Elliða Vignissonar má lesa hér í heild sinni hér:

Nú er mál að linni!
Það er hreinn og klár viðbjóður að hlusta á umræðu á opinberum vettvangi um Vestmanneyjar og Eyjamenn þessa daga. Ég upplifi fullyrðingar útvarpsmanna svo sem þessa: „Það er eins og þetta sé einhver íþrótt innfæddra að nauðga konum frá meginlandinu“ sem ofbeldi gagnvart mér og mínum.
Ég upplifi þetta sem sakfellingu án dóms og laga. Mér finnst hér ráðist gegn því sem mér er kært, heimahögum mínum, vinum og fjölskyldu. Það sem verra er þá finnst mér þetta skaða umræðu um kynferðislegt ofbeldi.
Fyrir skömmu var þátturinn Zúúber lagður af á Bylgjunni vegna fitusmánunar. Lektor hjá HR var sagt upp vegna ummæla um konur í lokuðum Facebook hópi. Starfsmaður Borgarleikhússin missti vinnuna fyrir að tala illa um samstarfsfólk sitt við móður sína í samskiptaforriti. Dæmi sem þessi eru mörg. Á sama tíma skellir samfélagið skollaeyrum við því að íbúar eins samfélags hér á landi séu stimplaðir sem kynferðisafbrotamenn.
Nú er mál að linni.
Ég krefst þess að stjórendur fjölmiðla taki á þessu meini og beiti sér af fullri hörku gegn þessum plagsið. Ég skora á fólk að sitja ekki þegjandi undir umræðum þar sem heilu hóparnir, hvað þá íbúar heils samfélags, eru tengdir við alvarlegt ofbeldi eins og nauðgun. Ég hvet þá sem ræða þessi mál á opinberum vettvangi til að sýna drengskap og forðast umræðu sem valdið getur saklausu fólki óþarfa sársauka eða vanvirðu.