Heimir Hallgrímsson er sterklega orðaður við þjálfarastöðuna hjá rússneska úrvalsdeildarliðinu Rostov í þarlendum fjölmiðlum í dag. Hann er sagður vera annar tveggja þjálfara sem koma til greina í starfið, rúv.is greindi frá.

Þjálfarastaðan hjá Rostov losnaði á dögunum eftir að Valery Karpin yfirgaf félagið til að taka við rússneska landsliðinu. Rússneski fjölmiðillinn Eurostavka greinir frá því að Heimir og Svartfellingurinn Miodrag Božović komi til greina í starfið. Annarsstaðar í rússneskum fjölmiðlum hafa fjórir aðrir þjálfarar verið orðaðir við starfið auk Heimis og Božović.

Í frétt Eurostavka kemur fram að forseti Rostov þekki vel til Heimis frá tíðum ferðum hans til Rostov að fylgjast með íslenskum landsliðsmönnum þegar hann stýrði íslenska landsliðinu. Ragnar Sigurðsson, Sverrir Ingi Ingason, Viðar Örn Kjartansson og Björn Bergmann Sigurðarson hafa leikið með rússneska liðinu.