Eins og vitað er hafa flugsamgöngur til og frá Vestmannaeyjum legið niðri síðan Icelandair hætti áætlunarflugi í sumar. Síðan þá hefur Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, verið í reglulegum samskiptum við samgönguráðherra og fulltrúa Vegagerðarinnar um nauðsyn þess að hefja að nýju flugsamgöngur til og frá Vestmannaeyjum og ráðuneytið og stofnunin sýnt því skilning. Bæjarráð hefur jafnframt átt nokkra fundi með samgönguráðuneytinu og Vegagerðinni og nú síðast miðvikudaginn 17. nóvember. Á þeim fundi komu fram þær fréttir að ráðuneytið muni fara í verðkönnun á lágmarksflugsamgöngum til og frá Vestmannaeyja í vetur vegna áhrifa Covid-faraldursins. Jafnframt tilkynnti ráðuneytið að það hefði falið Vegagerðinni að ráðast í forvinnu í tengslum við ákvörðun um hvort farið verði í útboð á ríkisstyrktu flugi, en slíkt fyrirkomulag þarf að samræmast reglum skv. EES-samningnum á þessu sviði.

Það er ánægjulegt að samgönguráðherra, fulltrúar ráðuneytisins og fulltrúar Vegagerðarinnar skuli sýna Vestmannaeyingum skilning á aðstæðum þeirra og beita sér fyrir því að finna ásættanlega lausn á að hefja reglulegar flugsamgöngur að nýju sem fyrst.