Slökkviliðið í Vestmannaeyjum var ræst rétt fyrir klukkan ellefu í kvöld(29.12) þegar tilkynnt var um eld í bíl á athafnasvæði sorpeyðingarstöðvarinnar. Þetta kemur fram á Facebooksíðu slökkviliðsins.
Þegar að var komið reyndist mikill eldur vera laus í þremur bílhræjum sem biðu förgunar auk sorphirðubíls Kubbs ehf.
Greiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins og eftir að mesti eldurinn var slökktur voru bílhræin fjarlægð eitt af öðru með aðstoð starfsmanna og tækja frá Kubb, farið yfir vettvanginn með hitamyndavél og þannig gengið úr skugga um að hvergi leyndust glæður eða hiti.
Ljóst er að um töluvert tjón er að ræða þar sem sorphirðubíllinn er líklega ónýtur og er lögregla nú með málið til rannsóknar.