Umræða um heilbrigðismál fór fram á fundi bæjarráðs í síðustu viku þegar rædd var staðan á HSU í Vestmannaeyjum. Davíð Egilsson, yfirlæknir heilsugæslunnar í Vestmannaeyjum, kom á fund bæjarráðs og fór yfir stöðu læknamönnunar á Heilsugæslunni í Vestmannaeyjum. Bæjarstjóri hefur, f.h. Vestmannaeyjabæjar, óskað eftir fundi með nýju heilbrigðisráðherra, til þess að ræða stöðu og starfsemi HSU í Vestmannaeyjum, stöðu sjúkraflugs og sjúkraþyrlu.

í sameiginlegri bókun bæjarráðs segir:

Líkt og kom fram í umfjöllun RÚV á dögunum hefur sjúkraflug á landinu öllu verið undir nær fordæmalausu álagi þrátt fyrir að ferðamönnum hafi snarfækkað vegna heimsfaraldurs. Afar takmarkað áætlunarflug til Vestmannaeyja eykur álag á sjúkraflug. Við flutning miðstöðvar sjúkraflugs til Akureyrar lengdist viðbragðstími til Vestmannaeyja og þrátt fyrir svarta skýrslu ríkisendurskoðunar frá 2013 hefur ástandið ekki lagast. Það er óásættanlegt.

Nauðsynlegt er að klára fjármögnun tilraunaverkefnis um sjúkraþyrlu á Suðurlandi til þess m.a. að bæta viðbragð við Vestmannaeyjar, þar sem lífsbjargandi þjónusta er takmörkuð. Bæjarstjóri hefur óskað eftir fundi bæjarráðs með nýjum heilbrigðisráðherra til að ræða stöðuna.