Það er gömul saga og ný að Eyjamenn láti hægagang við dýpkun í Landeyjahöfn fara í taugarnar á sér. Síðustu daga hafa aðstæður í í höfninni verið ágætar en ölduhæð fór ekki yfir tvo metra í rúmlega tvo sólarhringa og blaðamanni lá forvitni á því hvers vegna ekkert bólaði á dýpkunarskipinu við störf. G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi vegagerðarinnar sagði í samtali við Eyjafréttir að þetta væri ekki svo einfalt.

“Ölduhæðin náði lægst 1,5 m en öldulengdin var um og yfir 70 m lengd sem eru ekki nógu góðar aðstæður til þess að dýpkunarskipið geti athafnað sig í hafnarmynni Landeyjarhafnar. Það er fínt að hafa það í huga að dýpkunarskipið Dísan hefur djúpristu 4,3 og hefur mjög takmarkaða stjórnhæfni. Samanborið við að Herjólfur hefur 2,8 m djúpristu og mjög góða stjórnhæfni. Dýpið í Landeyjahöfn var mælt 26.janúar, og er í kringum 3,3 m í hafnarmynninu. Á flóðinu síðustu daga er sjávarhæðin í kringum +1,8 m og á fjöru +0,4 m. Dísan ætlaði að dýpka þegar sjávarhæð væri +1,0 m eða meira.”