Stjórn Herjólfs ohf. og framkvæmdarstjóri komu á fund bæjarráðs og fóru yfir málefni félagsins og stöðu réttindamáls, að því marki er hægt var að veita upplýsingar um það mál. Allir bæjarfulltrúar fengu boð á fundinn með fulltrúum Herjólfs ohf. Bæjarstjórn skipar stjórn Herjólfs ohf. Samkvæmt hlutafélagalögum og samþykkt Herjólfs ohf., fer stjórn félagsins með æðsta vald í málefnum félagsins milli hluthafafunda. Stjórn Herjólfs ohf., er nú skipuð þeim Arnari Péturssyni, formanni, Guðlaugi Friðþórssyni, Agnesi Einarsdóttur, Páli Guðmundssyni og Arndísi Báru Ingimarsdóttur, aðalmönnum. Varamenn eru Aníta Jóhannsdóttir og Birna Þórsdóttir Vídó. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins. Framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. er Hörður Orri Grettisson.

Það er því skýrt kveðið á um í lögum og samþykktum félagsins að hluthafi fari eingöngu með vald sitt á hluthafafundum og stjórn félagsins og framkvæmdastjóri beri ábyrgð á málefnum félagsins þess á milli. Félagaform Herjólfs ohf. er með þeim hætti að pólitískir fulltrúar stígi ekki inn í stjórnun eða starfsmannamál félagsins. Hins vegar getur hluthafi kallað eftir upplýsingum um starfsemina, innan þeirra marka er lög um hlutafélög, upplýsingalög og/eða önnur lög, eigi þau við, kveða á um.

Í niðurstöðu bæjarráðs er stjórn Herjólfs ohf. og framkvæmdastjóra þakkað fyrir upplýsingarnar. Bæjarráð tekur undir með stjórn félagsins um alvarleika málsins og mikilvægi þess að vinna það áfram með hagsmuni félagsins, starfsfólks og samfélagsins að leiðarljósi. Þá leggur bæjarráð áherslu á mikilvægi þess að ekki komi til skerðingar á þjónustu Herjólfs ohf., en fram kom í máli stjórnar að hún teldi svo ekki verða.

Fulltrúa D lista lagði fram eftirfarandi bókun. “Undirrituð leggur áherslu á góða upplýsingagjöf og samskipti stjórnar við eigendur, starfsmenn og aðra hlutaðeigandi.”