Andrés Þorsteinn Sigurðsson

Ef við hugsum þrjú ár aftur í tímann þá var allt á fullu við að hefja framkvæmdir við setja upp fastan dælubúnað í Landeyjarhöfn. Hugmyndin var að dæla frá landi þeim sandi sem lokar höfninni á veturna, þetta þarf ekki að vera mikið magn, en samt nóg til að ekki sé hægt að sigla í höfnina. Það er þekkt staðreynd að vandamál Landeyjarhafnar eru tvíþætt, sjólag og dýpið. Ef hægt er að leysa annan vandan þá erum við strax í betri stöðu, því það er mjög mikilvægt að halda höfninni opinni allt árið. Með nýju og betra skipi tókst að sigla í verra sjólagi og minna dýpi en hægt var á gamla skipinu. Með nýja skipinu sem er grunnristara en gamla, þá varð dýpið á rifinu fyrir utan höfnina ekki lengur vandamál og dýpið innan hafnar ekki heldur ef dýpkunarskipið komst inn í höfnina en eina sem stóð út af var dýpið í hafnarkjaftinum.  Við sem vorum í smíðanefnd nýja skipsins vissum að það myndi ekki leysa allan vanda Landeyjarhafnar því siglingar yfir harðasta veturinn yrðu alltaf erfiðar. Þess vegna þyrfti fleira að koma til en bara nýtt skip, þó staðan yrði mun betri en áður. Það er búið að sýna sig að dýpkun með skipi í hafnarkjaftinum gengur ekki á veturna sama hvernig skipið er útbúið. Fólki er talið trú um að Dísan sé vandamálið, en svona einfalt er það ekki. Ég var dögum saman um borð í mjög hentugu og góðu dýpkunarskipi , Jan De Nul, frá Belgíu þar sem mjög reyndir kappar voru á ferð, þar sá maður að það dugar ekki að dýpka frá sjó alveg upp við garðana þar sem sandurinn er sem lokar höfninni, það er ekki hægt nema á sumrin svona einfalt er það.

Hvað er þá til ráða, verkfræðingar Vegagerðarinnar lögðu til að dýpkað yrði frá landi þ.e. garðhausunum. Fjármagnið var tryggt 1.000.000.000kr (þúsund milljónir) og hafist var handa við að verkið. En núna þremur árum síðar er enginn dælubúnaður. Það hefur ekkert gerst, jú Belgarnir fóru með skipið sem hafði afköst, þó það breyti ekki öllu. Hvað varð um 1.000 milljónirnar sem áttu að fara í verkið og bæta samgöngurnar við Eyjarnar. Þær fóru í súginn. Hætt var í miðjum í klíðum í stað þess að ljúka verkinu. Eina sem var eftir var dælubúnaður og stálefni í tunnur. En peningarnir töpuðust, já þið lásuð rétt, þeir töpuðust með fullri vitund og samþykki bæjarstjórnar. Hverjar eru svo útskýringar bæjarstjórans á þessu? Sko, skipstjórarnir  á Herjólfi vildu þetta ekki, sko Vegagerðin hætti við. Það er engin ábyrgð tekin, engin. Í stað þess að fá höfn þar sem dýpið var nægjanlegt og nánast siglt alltaf, líka þegar fáum venjulega vetur þá sitjum við upp með klúður meirihluta bæjarstjórnar.  Staðan hefur breyst til batnaðar en núverandi meirihluti bæjarstjórn getur ekki þakkað sér neitt varðandi það, fyrrverandi meirihluti var búin að græja málin og skipið á leiðinni. Sem betur fer því annars værum við enn með gamla skipið því þeir sem standa að þessari bæjarstjórn og ráðgjafar þeirra höfðu ekki trú á nýja skipinu frekar en föstum dælubúnaði. Við getum hins vegar þakkað meirihluta bæjarstjórnar fyrir að Landeyjahöfn sé ekki opin. Dugleysi meirihluta bæjarstjórnar er með þeim ólíkindum að það hálfa væri nóg. Við skulum hafa í huga að skipstjórarnir á Herjólfi voru að stíga sín fyrstu spor sem skipstjórar og því seint hægt að tala um reynslubolta þar. Skipstjórarnir vildu þetta ekki, en það hljómar vel þegar bæjarstjórinn er að firra sig ábyrgð. Við vitum öll að það er ekki hlutverk skipstjóranna að sjá til þess að samgöngurnar séu í lagi, þeirra hlutverk er að sigla skipinu í þá höfn sem þeir treysta sér til. Við megum ekki gleyma að skipstjórarnir voru óbeint starfsmenn bæjarins og því á ábyrgð bæjarstjórnar. Auðvitað er gott að taka tillit til þeirra sjónarmiða og kannski hefði verið hægt að gera einhverjar breytingar á verkinu og halda áfram, en nei, hættum bara við og gerum ekkert, skilum fjármagninu því við höfum ekkert með það að gera. Vegagerðin hætti við, það er staðreynd að það var gert með fullri vitund og samþykki meirihluta bæjarstjórnar.  Það er gott að skýla sér á bak við Vegagerðina og taka enga ábyrgð, þetta er bara eins og hjá litlu krökkunum, þeir gerðu það, ekki ég.

Mér finnst það alltaf undarlegt þegar talað er um að fá óháða úttekt á Landeyjarhöfn, endilega eyðum peningum og tíma í það. Stjáni á Emmunni gæti gert þessa óháðu úttekt á korteri fyrir ekkert og hún yrði alveg jafn góð og hjá einhverjum meisturum sem tækju stórfé fyrir.  Það vita allir hver vandinn er, þetta er og verður erfið höfn, en hún gerir mikið fyrir Eyjarnar. Við munum alltaf þurfa að fara í Þorlákshöfn einhverja daga á ári. Ef bæjarstjórnin og bæjarstjórinn hefði haft einhverja rænu á því að halda Vegagerðinni við efnið og sett upp fastan dælubúnað væri staðan mun betri í dag og einhver reynsla bæst við um hvernig best væri að halda siglingum til Landeyjarhafnar sem bestum.

Ef bæjarbúar vilja ekki sætta sig við að ekkert sé gert næstu fjögur ár, þá er einfaldlega best að kjósa aðra til forystu og þá kannski fólk sem tekur ábyrgð á því sem það gerir. Í málefnum Landeyjarhafnar fær bæjarstjórnin falleinkunn. Hún hafði tækifæri að gera hana að heilsárshöfn en klúðraði því. Það breytist ekkert þó Njáll komi með eina greinina þar sem talað er niður til fólks, það skýtur skökku við, aldrei verið kvartað áður. Þetta er óásættanlegt fólk vill fá breytingar en ekki blaður, takið ábyrgð.

Andrés Þ. Sigurðsson
Hafnsögumaður í Reykjavík