Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, hafnar því í samtali við fréttablaðið að Landsnet uppfylli ekki kröfur sem gerðar séu til rafmagnsflutninga til Vestmannaeyja, skerðingar undanfarinna ára séu vegna truflana á kerfinu uppi á landi en ekki vegna bilana í sæstrengjunum til Eyja.

Líkt og fram hefur komið fundaði bæjarstjórn Vestmannaeyja um rafmagnsleysið sem varð í bænum í síðustu viku, þar kom fram í bókun að staðan væri óásættanleg. Það þyrfti sex megavött til viðbótar í varaafl.

„Staðan í Vestmannaeyjum er ekkert frábrugðin því sem gerist á öðrum stöðum,“ segir Guðmundur. Að meðaltali hafi verið skerðingar á hluta af forgangsrafmagni í Vestmannaeyjum í þrjár klukkustundir á ári síðustu fimm árin.

„Það er algjörlega sambærilegt við það sem gerist til dæmis í Neskaupstað. Skýringarnar á þessu straumleysi eru ekki að sæstrengirnir hafi verið að trufla heldur fyrst og fremst kerfið uppi á landi.“ Þess vegna er áherslan á að styrkja kerfið þar.

Tveir sæstrengir flytja rafmagn til Vestmannaeyja. Vestmanneyjastrengur 1 er kominn til ára sinna. Guðmundur segir að hann hafi ekki bilað í áratugi en það sé á langtímaáætlun Landsnets að skipta um strenginn. Vestmanneyjastrengur 3 var tekinn í gagnið árið 2013 og segir Guðmundur að hann hafi einu sinni bilað, það hafi að öllum líkindum verið vegna framleiðslugalla.

Forgangsrafmagn í Vestmannaeyjum er í mesta lagi um ellefu megavött. Bili Vestmanneyjastrengur 3 er unnt að flytja 8 megavött með Vestmanneyjastreng 1 auk þess sem núverandi varastöðvar eru með 5,5 megavött. Guðmundur segir að ef svo ólíklega vildi til að þeir biluðu báðir á sama tíma væru til færanlegar stöðvar með tólf megavöttum hjá Landsneti.

Guðmundur segir að staðan breytist verulega til batnaðar í vor. „Þá tökum við í notkun nýja spennistöð rétt austan við Þjórsá. Þaðan hefur verið lagður jarðstrengur til Hellu og Hvolsvallar. Það bætir afhendingaröryggið á Suðurlandi verulega. Á næsta ári hefjast framkvæmdir við jarðstreng frá Lækjartúni til tengistöðvar Vestmannaeyjastrengjanna í Rimakoti, þar með verður komin á tvöföld tenging til Vestmannaeyja. Þetta mun tryggja Vestmanna­eyingum meiri afhendingaröryggi sem og Sunnlendingum öllum.“