Fræðslufulltrúi kynnti á fundi fræðsluráðs í vikunni niðurstöður úr Hljóm-2 skimunarprófi sem lagt var fyrir nemendur á Víkinni sl. haust. HLJÓM-2 er aldursbundin skimun sem er lögð fyrir til að meta hljóðkerfis- og málmeðvitund barna í elsta árgangi leikskólans í því skyni að greina þau börn sem eru í áhættu fyrir síðari lestrarerfiðleika. Slök hljóðkerfis- og málvitund er talin aðalorsök lestrarvanda hjá 88% barna (9 af hverjum 10 börnum). Skimunin var lögð fyrir alla nemendur Víkurinnar, 47 talsins, og voru 25,5% nemenda sem náðu góðri færni, 51% náði meðalfærni, 15% voru með slaka færni og 8,5% með mjög slaka færni. Þau börn sem fengu slaka færni, mjög slaka færni eða voru í meðalfærni með lágan heildarstigafjölda (tvítyngd börn) fengu þjálfun á deild sem og auka málvörvun hjá sérkennara 1-2 í viku. Í lok janúar var skimunarprófið lagt aftur fyrir þá nemendur sem voru í áhættuhópi, alls 15 nemendur, og sýndu þeir allir framfarir og heildarstigafjöldi varð hærri hjá öllum. 14 nemendur náðu meðalfærni við seinni prófunina.

Í niðurstöðu málsins þakkar ráðið kynninguna. “Þessar niðurstöður sýna það að snemmtæk íhlutun er afar mikilvæg á leikskólaárum svo draga megi úr mögulegum lestrarvanda hjá börnum þegar í grunnskóla er komið.”