Snorri Rúnarsson heiti ég og er á 20. aldursári. Undanfarin ár hef ég fylgst mikið með pólitíkinni hér í Eyjum. Ég sit í stjórn Eyverja, félagi ungra sjálfstæðismanna, áður sem ritari en nú sem varaformaður. Ég hef fylgst með flestum fundum bæjarstjórnar undanfarið ár og oft langað að tjá mig um ýmis málefni. Tel mig hafa sterkar skoðanir og læt mig margt varða.
Það er mikilvægt að hafa ungt fólk í fremstu röð í stjórnsýslu bæjarfélagsins sem fulltrúa æskulýðs í Eyjum. Grunnstoðir samfélagsins þurfa að vera í góðu lagi til þess að ungmenni sækist eftir að búa í Eyjum, Þar skipta miklu , góðar samgöngur, heilbrigðismál, rafmagn og samskiptaleiðir (ljósleiðari), menning og afþreying og möguleikar til menntunar, hvort sem það er í fjarnámi eða staðnámi.
Ég hef því ákveðið að bjóða mig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum sem myndar síðan framboðslista fyrir bæjarstjórnarkosningar í vor. Í Vestmannaeyjum líður mér vel. Hér er ég fæddur og uppalinn og vil búa um ókomna tíð.
Vona að þessar grunnstoðir bæjarfélagsins muni eflast og þróast og hvetji ungt fólk til að flytja til Eyja.
Heimaey er dásamleg náttúruperla og í Eyjum er sennilega eitt sterkasta samfélag sem finnst á Íslandi. Hér standa allir saman í blíðu og stríðu, hvað sem á dynur.