Jóna Sigríður Guðmundsdóttir

Mikil uppbygging hefur verið í Vestmannaeyjum undanfarin ár hjá einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélaginu sem er mikið gleðiefni.

Í dag eru aðeins 15 lóðir lausar fyrir einbýlishús en engar fyrir fjölbýlishús, atvinnuhúsnæði né fyrir frístundahús. Árið 2020 voru 33 lausar lóðir en frá þeim tíma hefur verið gert nýtt deiliskipulag og lóðir auglýstar í Áshamrinum, athafnasvæði við Græðisbraut, norðurhluta austurbæjar Sólhlíð, athafnarsvæði við flugvöll og miðbær Hvítingavegur. Samtals eru 30 nýjar lóðir á þessum svæðum meðtöldum fimm lóðum á svæði miðbær Hvítingavegur en þær hafa ekki farið í auglýsingu.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að þétta byggð og hefur það gengið mjög vel eins og fjöldi lausra lóða sýnir.

Nýjar lóðir – nýtt deiliskipulag
Í nýju deiliskipulagi í Áshamrinum er nú þegar búið að úthluta öllum raðhúsalóðunum. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í vikunni var ákveðið að auglýsa lóðir fyrir lítil fjölbýlishús, um er að ræða fjórar fjórbýlishúsalóðir, samtals 16 íbúðir. Þá á aðeins eftir að auglýsa fjölbýlishúsalóðina sem er fyrir 18 íbúðir.

Athafnasvæði við Græðisbraut var deiliskipulagt m.a. vegna ákvörðunar um staðsetningu á nýrri slökkvistöð og þá um leið öðrum lóðarhöfum gert kleift að óska eftir breytingum.

Í deiliskipulagi norðurhluta austurbæjar Sólhlíð urðu til nýjar lóðir og hefur öllu verið úthlutað.

Nýtt deiliskipulag, athafnasvæði við flugvöll, var gert og ákveðið að áfangaskipta úthlutun á því svæði, en 11 lóðir voru í fyrsta áfanga. Ákveðið var að áfangaskipta úthlutuninni þar sem óvíst var hver eftirspurn fyrir slíkar lóðir væri. Eftirspurn var framar vonum og verður fljótlega farið í að auglýsa seinni áfanga svæðisins.

Deiliskipulag fyrir miðbæ Hvítingaveg var samþykkt á síðasta bæjarstjórnarfundi og er nú í stjórnsýslulegu ferli. Lóðirnar eru fimm á því svæði og munu fara í auglýsingu á næstu dögum.

Ný leið í þéttingu byggða
Boðaslóð 8-10, Rauðagerðislóðin, hefur farið í gegnum ferli kauptilboðs í hús og byggingarétt og mun í framhaldinu fara í deiliskipulagsferli en þar má áætla að verði um 18 íbúðir. Um er að ræða mjög spennandi lóð í grónu hverfi. Ráðið ákvað að fara þessa nýju leið með þessa eftirsóttu lóð til þess að fá heildarsýn á reitinn.

Hvað er í vinnslu og skoðun?
Deiliskipulag fyrir miðbæjarsvæðið er langt komið í vinnslu og mun fara til afgreiðslu í umhverfis- og skipulagsráði og bæjarstjórn á næstu vikum.

Nýtt svæði fyrir frístundabyggð er í skoðun og mun í framhaldi fara í deiliskipulagsferli.

Miðgerði er á bið þar sem Minjastofnun telur að fornminjar séu á hluta af svæðinu og þarfnast frekari skoðunar þeirra áður en hægt er að úthluta lóðum, en það svæði er nú þegar skipulagt.

Framtíðarsýn
Stóru verkefnin sem eru framundan í skipulagsmálum eru annars vegar Löngulág, malarvöllur og svæðið í kring, en í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 var gert ráð fyrir fjármagni í deiliskipulag á því svæði og í framhaldinu mun verða hægt að auglýsa þar fjölbreyttar lóðir. Hins vegar er nýja hraun, þróunarsvæði sem er merkt sem M2 í aðalskipulagi. Svæðið liggur austan við miðbæ á mótum Kirkjuvegar og Skansvegar. Unnið er að minnisblaði fyrir umhverfis- og skipulagsráð um hver möguleg næstu skref eru fyrir svæðið. Mikilvægt er að skoða alla möguleika til að fjölga lóðum í miðbænum, enda lóðir í miðbænum mjög eftirsóttar. Nauðsynlegt er fyrir bæjarfélagið að eiga fjölbreyttar lóðir lausar svo frekari uppbyggingu verði ekki hamlað.

Þegar horft er til baka þá er ekki annað hægt en að dást að framtakssemi og krafti einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélagsins sem standa að baki myndarlegri uppbyggingu í bæjarfélaginu. Slíkt hefur jákvæð áhrif á allt samfélagið og styrkir það um leið. Þetta endurspeglast í ánægju bæjarbúa eins og þjónustukannanir hafa sýnt undanfarin ár. Hér vill fólk búa og líður vel í sínu nærumhverfi.

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir
Formaður umhverfis- og skipulagsráðs